Fara í efni

ENN UM SPILAVÍTI

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 23.09.13.
Mánudaginn 16. september birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Spilavíti eiga marga vini. Þar kom fram að mikil tregða væri innan þings sem utan að stemma stigu við fjárhættuspilum enda miklir hagsmunir í húfi. Þannig hafi verið brugðið fæti fyrir lagafrumvarp sem ég hefði lagt fram, þar sem stigin væru fyrstu skref til að ná utan um vandann, m.a. með stofnun Happdrættisstofu, sem sinnti aðhaldi, ráðgjöf og beindi fjármagni til forvarna.

Ágengara spilaumhverfi

Í greininni sagði ég að spilaumhverfið gerðist sífellt vofeiflegra og nefndi ég Happdrætti Háskóla Íslands sérstaklega með samtengdum vélum sínum sem freistuðu fólks með milljónavinningum í sérstökum háspennusölum. Einn slíkan væri verið að opna nú við Lækjartorg í Reykjavík.
Forstjóri Háskólahappdrættisins vísar ummælum mínum á bug og segir: „Engir alþingismenn unnu fyrir Happdrætti Háskóla Íslands til þess að koma í veg fyrir myndun Happdrættisstofu."

Um samviskuna

Í framhaldi af þessum orðum sé ég ástæðu til að taka fram að ég hef aldrei haldið því fram að alþingismenn væru á mála hjá hvorki Happdrætti Háskóla Íslands né nokkrum öðrum rekendum spilavíta. Ég gef mér að allir starfi einfaldlega samkvæmt eigin bestu samvisku. Menn geta hins vegar verið vinsamlegir þessari starfsemi jafnvel í hennar verstu myndum, allt samkvæmt tandurhreinni eigin samvisku.
Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Háskólahappdrættisins vísar ennfremur á bug staðhæfingum mínum um að umhverfið verði sífellt óhugnanlegra. Í frétt Mogunblaðsins segir um þetta: „Það er ekki hægt að taka undir það með Ögmundi , segir Bryndís og bendir á að þær nýjungar sem snúa að viðskiptavinum lúti mun frekar að öryggi þeirra. Reynt sé að stuðla að ábyrgri spilun."

Víða sama þróun en eftirlitið hér lakara

Síðan segir forstjórinn frá dæmum um þetta, m.a. varnaðarorðum sem upp sé komið um spilafíkn á spilakössum.
Nú ætla ég ekki að fara úr í neinar hártoganir um þetta. Ég vil þó segja skýrt og skorinort að það er rangt að spilaumhverfið gerist ekki sífellt ágengara og hættulegra einstaklingum sem ánetjast hafa spilafíkninni. Og þar er það staðreynd að Háskólahappdrættið hefur gengið sífellt lengra í sínum vélakosti hvað það snertir að örva fólk til þess sækja spilavíti með tilboðum um hærri vinninga. Auðglýsingadrífan þessa dagana vegna Háspennusalarins við Lækjartorg segir sína sögu. Aðrir rekendur spilakassa hafa einnig sótt í sig veðrið þótt allir þessir aðilar eigi undir högg að sækja gagnvart nýjasta og hættulegasta bölvaldinum, spilun á netinu.
Ekki er þessi þróun einsdæmi hér á landi. Þannig gerast vinningar í hinu alþjóðlega umhverfi sífellt stærri og þar með væntanlega eftirsóknarverðari. Það sem er frábrugðið hér á landi því sem gerist í grannlöndum okkar er að eftirliti svo og laga- og regluverki er verulega ábótavant.

Breytingar hafa verið undirbúnar

Á öllu þessu var ætlunin að taka með því lagafrumvarpi sem ég lagði fyrir Alþingi á síðasta þingi sem stjórnarfrumvarp. Ég þykist vita að innan spilafyrirtækjanna séu ýmsir sem nú  vilja pikka það hagstæða út úr frmuvarpinu, svo sem heimild til að reka netspilun en sleppa því sem þau telja sér hamlandi og þá sérstaklega því að komið verði á laggirnar sjálfstæðri eftirlits-,aðhalds og eftirlitseiningu, Happdrættisstofu, sem horfði bæði til sjálfrar starfseminnar og forvarna.
En að sama skapi er mér fullkunnugt um að innan allra þessara stofnana, þar með talið Happdrættis Háskóla Íslands, og vísa ég þar sérstaklega til formanns stjórnar, Eyvindar Gunnarssonar, hefur verið skilningur og áhugi á því að taka ábyrgt á þessum málum.
Undirbúningsvinnan hefur verið unnin. Frumvarpið er tilbúið. Nú reynir á viljann til verka.