ER ALCAN ÍBÚI Í HAFNARFIRÐI?
Birtist í Fjarðarpóstinum 29.03.07.
Nú nálgast sá dagur að Hafnfirðingar greiði atkvæði um stækkun álversins í Straumsvík. Ekki er saman að jafna fjárhagslegum burðum annars vegar þeirra sem vilja stækka verksmiðjuna og hins vegar hinna sem því eru andvígir. Bakhjarl þeirra sem vilja stækka er sjálfur auðhringurinn og álrisinn Alcan en að baki Sólar í Straumi er hugsjónafólk án peninga. Nokkuð hefur borið á því að fólki utan Hafnarfjarðar finnist að rangt sé að einskorða þessa atkvæðagreiðslu við Hafnfirðinga eina. Þessar raddir hafa ekki síst heyrst frá íbúum við Þjórsá, nærri þeim stöðum sem nýjar virkjanir yrðu reistar til að knýja stækkaða verksmiðju í Straumsvík. Aðrir segja að atkvæðagreiðslan komi öllum landsmönnum við enda eigum við öll að vera gæslumenn náttúrunnar. Þetta er rökrétt og það er líka rétt að efnahagslegar afleiðingar stækkunar kæmu til með að snerta alla landsmenn, bæði heimili og atvinnurekstur.
Framhjá hinu verður þó ekki horft að Hafnfirðingar eru þrátt fyrir allt að taka ákvörðun um deiliskipulag sem snertir sérstaklega þeirra byggð og framtíðarmöguleika hennar. Sumum finnst að með því að reisa stærstu álverksmiðju Evrópu nánast inni í Hafnarfirði sé verið að torvelda frekari byggðarþróun á þessu fagra svæði og auka mengun fyrir stundarhagnað; ávinning sem auk þess mætti ná með öðrum hætti. Aðrir líta á það sem mikla gæfu að hafa þennan risastóra og stækkandi vinnustað innan bæjarmarkanna.
Sjálfur er ég á þeirri skoðun að atkvæðagreiðslan í Hafnarfirði komi öllum landsmönnum við þótt ég sjái einnig sérstöðu Hafnfirðinga og virði hana. Gefum okkur að Hafnfirðingar eigi einir að útkljá málið með því að sannfæra hvern annan um rétt og rangt í þessu efni og að engir aðrir eigi þar að koma að máli – hvorki með áróður né með fjármagn. Fróðleg spurning að fá svar við væri þá þessi: Er Alcan Hafnfirðingur? Hefur fjölþjóðarisinn rétt umfram Íslendinga almennt til að skipta sér af fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu? Hvort skyldi erlendum eigendum Alcans vera meira hugleikinn: Eiginn hagnaður og hagur eða framtíðarhagur Hafnarfjarðar?