Er bætandi á misréttið Tryggvi?
18.06.2003
Tryggvi Gíslason skólameistari Menntaskólans á Akureyri hefur alla tíð verið í miklu uppáhaldi hjá mér sem góður skólamaður auk þess sem hann hefur oft haft margt uppbyggilegt fram að færa í þjóðfélagsumræðunni. Skólaslit Menntaskólans á Akureyri hafa þannig í hans skólameistaratíð verið vekjandi samkomur og hefur framlag skólameistara ekki síst verið þess valdandi. Þess vegna koma yfirlýsingar Tryggva Gíslasonar nú um að selja beri aðgang að menntaskólum landsins gersamlega í opna skjöldu. Í lesendabréfi frá Ólínu í dag er tekið djúpt í árinni hvað þetta snertir. Hún furðar sig m.a. á ummælum skólameistara um skólagjöld. Það gerði ég líka bæði við lestur Morgunblaðsviðtalsins og einnig þegar ég hlýddi á sjónvarpsviðtal við Tryggva Gíslason þar sem hann sagði á þá leið að í samfélagi samtímans megi ætla að þá fyrst skynji nemendur mikilvægi menntunar þegar þeir þurfi að greiða fyrir hana. Þetta voru engar heimspekilegar vangaveltur. Þetta voru rök fyrir skólagjöldum á framhaldsskólastigi. Í framhaldinu held ég að margir hljóti að hafa spurt hvort það hafi ekki öðrum fremur verið nemendur Menntaskólans á Akureyri og annarra menntastofnanna sem landsbyggðarfólk sækir, sem hafi þurft að standa straum af himinháum námskostnaði. Það er mikill aðstöðumunur í því fólginn, annars vegar að geta stundað nám sitt búandi í foreldrahúsum og hins vegar að búa á heimavist eða í öðru leiguhúsnæði fjarri eldhúsborðinu heima. Er bætandi á þetta misrétti? Að þessu er vikið í fyrrnefndu lesendabréfi, sem greinilega er skrifað af tilfinningahita.