Er Davíð að hætta – skiptir það máli?
Í rauninni þarf það ekki að vera neitt undarlegt að fólk og fjölmiðlar skemmti sér yfir gátunni um hvað Davíð Oddsson ætlar að taka sér fyrir hendur við stólaskiptin í haust. Fréttablaðið slær því upp á forsíðu að skoðanakönnun gefi til kynna að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar vilji að hann hætti. Fræðimenn og pólitíkusar, þar á meðal ég, eru síðan beðnir um útleggingar. Prófessor í stjórnmálafræði telur þetta benda til þess að staða Davíðs sé að veikjast og svör stjórnmálamanna ráðast síðan að nokkru af því hvar þeir standa í stjórnmálum. Þetta er svona eins og hver önnur gestaþraut eða dægurgaman og sára saklaust. Eða hvað?
Ég velti því fyrir mér hvort stjórnmálaumræðan sé sífellt að verða einangraðri við "persónur og leikendur", við persónupólitík. Í vikunni skrifaði ég grein sem bar titilinn foringjapólitík, og vék ég að forsætisráðherranum og forsetanum í því samhengi. Forsætisráðherrann léti ríkið skrifa bók um forsætisráðherra þjóðarinnar, væntanlega vegna þess að honum finnst allt hafa staðið og fallið með þeim einstaklingum sem gegnt hafa þeirri stöðu. Og forsetinn boðar til fréttamannafundar þar sem hann segist ætla að verða háværari í þjóðfélagsumræðunni á komandi kjörtímabili, nái hann kjöri að nýju. Í sjónvarpsviðtali í vikunni sagði Ólafur Ragnar Grímsson, aðspurður um þetta efni, að menn skyldu ekki gleyma því að hann hefði umboð sitt frá þjóðinni – hvorki hann né þeir, þ.e. spyrlarnir í Kastljósi, réðu nokkru um þetta. Svo var að skilja að þetta yrði á milli þjóðarinnar og forsetans, öðrum kæmi þetta ekki við, menn yrðu bara að bíða og sjá hvaða niðurstöðu þjóðin og forsetinn kæmust að. Spyrlarnir urðu náttúrlega kjaftstopp en spurðu sjálfa sig án efa eftir þáttinn hvort þeir væru ekki hluti af þessari þjóð og hvort ekki væri rétt að ræða af nokkurri nákvæmni hvaða umboð væri verið að fara fram á, fyrst forsetinn ætlaði að fara að beita sér fyrir alvöru. Nú skal tekið fram að þessi mál á að gaumgæfa án tillits til hvaða einstaklingar eiga í hlut þessa stundina. Það gæti hugsanlega skýrt myndina ef við til dæmis hefðum skipti á þeim Ólafi Ragnari og Davíð og það væri sá síðarnefndi sem ætlaði að láta frá sér heyra á Bessastöðum og halda uppi sambandi við "forystusveitir" erlendra ríkja, eins og það var orðað.
Lýðræði á að mínum dómi að byggja á fjöldavirkni, ekki að einstökum mönnum verði fenginn í hendur óútfylltur víxill til ráðstöfunar. Vitanlega má segja að eðli fulltrúalýðræðis sé einmitt þetta. Þannig fái stjórnmálamenn, forsvarsmenn stéttarfélaga og annarra samtaka ákveðið umboð til að tala fyrir hönd annarra. Mín skoðun er hins vegar sú að mikilvægt sé að leitast jafnan við að koma allri stjórnmálaumræðu úr farvegi persónustjórnmála yfir í málefnalegan farveg. Þannig yrðu stólaskipti í ríkisstjórninni fyrst og fremst skoðuð í ljósi málefna, t.d. spurt hvaða þýðingu stólaskipti komi til með að hafa hvað snerti áherslur ríkisstjórnarinnar, hvort formannsskipti í Sjálfstæðisflokknum myndu til dæmis þýða breytta Evrópustefnu og í því samhengi hvort máli skipti hvaða einstaklingur yrði fyrir valinu.
En erum við ekki þá einmitt kominn inn í þann farveg sem hér er varað við, að horfa til einstaklinganna? Svar mitt er á þá lund að vissulega skipta einstaklingar máli. Þeir skipta hins vegar mismiklu máli. Í einræðisþjóðfélagi skiptir meira máli hvaða einstaklingur hefur völdin á hendi en í lýðræðisþjóðfélagi. Þar skiptir minna máli hvaða einstaklingur gegnir stöðu forsætisráðherra, einfaldlega vegna þess að vilji hans nær síður fram að ganga en vilji einræðisherrans. Í lýðræðiskerfinu þarf að taka tillit til sjónarmiða margra. Vel vakandi lýðræðisþjóðfélag er líka líklegt til að þröngva stjórnvaldinu til að réttlæta gjörðir sínar málefnalega. Einnig þetta dregur úr vægi foringjans.
Á milli þessara tveggja póla eru síðan óteljandi millistig. Ekki vefst það fyrir mér að gera upp við mig í hvora áttina ég vil halda. Ég vil gera þjóðfélagið lýðræðislegra, með því að greiða sem mest fyrir fjöldavirkni.
Í þessu efni geta fjölmiðlar gegnt veigamiklu hlutverki. Það væri ánægjulegt ef þeir legðu sem allra mesta rækt við að beina umræðunni jafnan inn á málefnalegar brautir. Það þýðir að draga þarf verulega niður í allri kóngahugsun því slík hugsun færir foringjum völd. Ef það er hins vegar gert á meðvitaðan og markvissan hátt þá uppskerum við líka lýðræðislegra samfélag. Ég hef þá trú að í slíku samfélagi nái bæði réttlæti og skynsemi betur að dafna.