Er forsætisráðherra að ofsækja Baug?
Þannig spyr DV í vikunni af tilefni fjölmiðlafrumvarps. Hannes Hólmsteinn Gissurarson er fenginn til að tjá sig um hugsanlegt einelti á hendur Baugi. Hannes telur þetta vera af og frá. Hins vegar sé deginum ljósara að fórnarlambið sé forsætisráðherrann, Davíð Oddsson. Baugur beiti bæði blöðum og sjónvarpsstöðvum gegn honum. "Svo er skemmst að minnast", segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, "þegar Jón Ásgeir reyndi að ná völdum í landinu með því að kaupa Fréttablaðið og beita því gegn Davíð Oddssyni fyrir síðustu kosningar".
Er þetta ekki svolítið skondin umræða? Annað hvort er lítilmagninn Baugur, fyrirtæki sem hefur nánast einokun á ýmsum sviðum verslunar í landinu, og hins vegar Davíð Oddsson, skjólstæðingur gamalgróinna stórfyrirtækja, forvera Baugs í atvinnulífinu!
Frá mínum sjónarhóli þarf hvorki Baugur né oddviti Sjálfstæðisflokksins á neinni meðaumkun að halda og fær hana ekki frá mér. Og vegna þess að spurt er um ofsóknir á hendur Davíð Oddssyni og stjórnarmeirihlutanum, vil ég segja að þessar spurningar eru framhjá marki. Forsætisráðherra er ekki að ofsækja Baug. Og Baugur er ekki að ofsækja forsætisráðherra. Davíð Oddsson og stjórnarmeirihlutinn eru hins vegar að ofsækja lýðræðið með vinnubrögðum sínum. Kjarninn í lýðræðinu eru ekki eingöngu lögin sem sett eru heldur hin opna og vandaða umræða. Menn verða að hafa dug til að taka þá umræðu. Það er skylda launaðra fulltrúa fólksins. Þeirri skyldu bregðast Davíð Oddsson og félagar hans í ríkisstjórn.