ER RÍKISSTJÓRNIN AÐ ÖGRA ÞJÓÐINNI?
07.04.2008
Fram kemur í fréttum í dag að forsætisráðherra og viðskiptaráðherra séu á leið til útlanda - í einkaþotu. Fyrir nokkrum dögum var það gagnrýnt harðlega þegar oddvitar ríkisstjórnarflokkanna héldu ásamt föruneyti sínu til Búkarest í Rúmeníu á NATÓ fund í einkaþotu. Þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún sögðust vera að spara tíma. Í þessum ferðmamáta væri einnig fólgið hagræði. Ekki efa ég að svo sé. Það vill hins vegar svo til að þetta myndi eiga við um okkur öll. Það er nefnilega auðveldara og þægilegra að ferðast til útlanda í einkaþotu en að gera einsog við gerum flest, taka áætlunarflugvél frá Keflavík.
Eitt er Jón og annað séra Jón var lengi haft að orðtaki á Íslandi þegar stéttaskipting og aðstöðumunur var til umræðu. Tuttugasta öldin var stórkostleg tilraun til að eyða slíkum mun, jafna kjörin og kannski framar öllu, draga úr hvers kyns mismunun og forrétindum. Í seinni tíð hefur orðið afturkippur hvað þetta varðar. Hér á landi höfum við séð verða til auðmenn sem með lífsmáta sínum hafa sagt sig úr lögum við samfélag sitt og þjóð. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Það finnum við best þegar á móti blæs. Þá skynjar þjóðin að hún þarf að taka sameiginlega á honum stóra sínum, leggjast saman á árarnar. En þá þurfum við líka að vera á sama báti. Það er stjórnvalda hverju sinni að skapa þá tilfinningu, bæði með stjórnarathöfnum en einnig með breytni sinni. Með henni er hægt að hafa áhrif á liðsandann.
En hvað gerir ríkisstjórnin? Leggur hún áherslu á það sem sameinar? Sýnir hún fordæmi um góða ráðdeild og sanngirni? Nei, hún velur það sem helst er táknrænt um misskiptingu, óhóf og bruðl undangenginna ára - hún velur það sem er táknrænt um allt það sem raunsætt og sanngjarnt fólk telur nú ástæðu til að forðast?
Við þær aðstæður sem við nú búum við er einkaþota undir ráðherra ríkisstjórnar landsins annað og meira en farkostur til að ferðast með. Hún er tákngervingur firringar og hroka.
Heyra mátti á forsætisráðherra að honum mislíkaði gagnrýnin á ferðamáta hans og utanríkisráðherrans. Hann talaði um að þessi gagnrýni væri á lágu plani. Getur verið að nú sé að nýju pöntuð einkaþota til að minna okkur á hver sé Jón og hver séra Jón, til að minna okkur á hver hafi valdið? Getur verið að þetta sé gert til að ögra?