Fara í efni

ER RÚV AÐ HJÁLPA INGIBJÖRGU OG GEIR AÐ VIÐHALDA EFTIRLAUNA-SÉRRÉTTINDUM SÍNUM?


Í fréttum RÚV í kvöld sagði meðal annars: „Óvíst er hvort fullkomin sátt náist um breytingarnar á lögunum. Þegar þingi var frestað í vor voru stjórnarflokkarnir sammála um að koma ætti í veg fyrir að menn þiggi laun og taki eftirlaun á sama tíma og um að fella niður heimild til að taka eftirlaun við 55 ára aldur. Samfylkingin vildi hins vegar ganga lengra en Sjálfstæðisflokkurinn í að skerða þegar áunnin lífeyrisréttindi en deildar meiningar eru um hvort það stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, mótmælti því harðlega í vor að samið yrði nýtt frumvarp. Frekar ætti að greiða atkvæði um frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, sem allsherjarnefnd Alþingis hefur haft til umfjöllunar síðan í byrjun nóvember í fyrra."

Hér er misskilningur á ferðinni.
  • 1) Aldrei hefur komið fram að Samfylking vilji ganga lengra en Sjálfstæðisflokkur um breytingu á lífeyrislögunum. Samfylkingin lét þetta í veðri vaka fyrir kosningar en þetta reyndust orðin tóm.

         •   2)   Aldrei hefur komið fram tillaga frá Samfylkingunni eða vilji til að skerða „þegar áunnin lífeyrisréttindi..."

  • 3) Ögmundur Jónasson -  sá sem þetta ritar - mótmælti því vissulega í vor að boðið yrði upp á annað en að greiða atkvæði um afnám laganna og að hlutaðeigandi færu inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þessa afstöðu hefur sami Ögmundur Jónasson nú ítrekað við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það gerði hann á nýafstöðnum fundi sem hann sat sem staðgengill formanns VG. Það þýðir að vangaveltur RÚV um að „óvíst"„hvort fullkomin sátt náist um breytingarnar á lögunum" eru út í loftið. Fullyrða má að „fullkomin sátt" í anda þeirra hugmynda sem formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafa boðað mun ekki nást.

Ömurlegt er að fylgjast með tilraunum ráðherranna tveggja að ná samkomulagi um lágmarksbreytingar á lífeyrislögunum með það fyrir augum að viðhalda sérréttindum sínum. Ég frábið að fjölmiðlar hjálpi þeim í þessu ætlunarverki. Ekki gleyma því að lífeyrislögin alræmdu eru sérstaklega sniðin að hagsmunum ráðherra sem fá 6% af  launum sínum fyrir hvert ár í embætti  sem ráðherra. Þingmenn fá 3%. Í LSR er rétturinn innan við 2% og í mörgum lífeyrissjóðum minna en 1,5%!
Fullkomin sátt? Við hvern? Þingið? Þjóðina? Ekki við mig.