ER SAMAN AÐ JAFNA LANDSBANKANUM HF OG SEÐLABANKA ÍSLANDS?
Eiríkur Jónsson, skrifar mér ( þó ekki í krafti embættis síns sem formaður Kennarasambands Íslands) og fer fram á það við mig að ég reyni mig við samanburð á Icesave skuldum Landsbankans annars vegar og afleiðingum „gjaldþrots" Seðlabankans hins vegar. Kvartar hann yfir því að í fjölmiðlaumræðu hafi þetta tvennt ekki verið lagt að jöfnu.
Bréf Eiríks Jónssonar:
Sæll Ögmundur.
Ég hef skrifað þér nokkrum sinnum tölvupóst, en aldrei sent hann til heimasíðu þinnar. Ég hef fjallað um skoðun mína á ICESAVE og aðkomu þína að því máli. Það liggur fyrir að við erum algjörlega á öndverðum meiði þar og framtíðin ein getur skorið úr um hvor hefur rétt fyrir sér í þeim efnum. Mig langar hins vegar að biðja þig að taka fyrir gjaldþrot Seðlabankans á síðunni þinni og fjalla um og reikna út hvað „ástarbréf" og „lánveitingar" hans fram að hruni og gjaldþrot hans í framhaldinu koma til með að kosta þjóðarbúið og bera það saman við væntanlegan kostnaðinn af ICESAVE. Mér finnst oft gleymast að í báðum tilfellum er um að ræða glórulausa stjórnunarhætti og gjaldþrot banka sem leiðir af sér ómældan kostnað fyrir samfélagið. Þingmenn og fjölmiðlar virðast hins vegar sammála um að fjalla aðeins um afleiðingar annars hrunsins en ekki hins. Spurningar mínar eru eftirfarandi: Hvort þrotið er að þínu mati þungbærara fyrir þjóðina? Telur þú að þjóðin sé sáttari við að greiða fyrir ástarbréf og óreiðu bankastjóra Seðlabankans en fyrir óreiðu bankastjóra Landsbankans? Umfjöllun á heimasíðu og grein í Morgunblaðinu um þetta væri flott.
Bestu kveðjur,
Eiríkur Jónsson
Afleiðing en ekki orsök
Stærstu afglöp Seðlabankans að mínum dómi og hlutur hans í hruninu tel ég ekki hafa verið lánveitingar hans til bankanna í aðdraganda hrunsins þar sem Seðlabankinn tók margumtöluð „ástarbréf" bankanna sem veð. Þetta hafði vissulega í för með sér að ríkið sat uppi með tapið eftir að bankarnir féllu. Hafa ber þó í huga að þetta átti rót að rekja til þess hvernig komið var fyrir bönkunum. Þetta var með öðrum orðum afleiðing, ekki orsök. Það breytir því ekki að þetta voru afdrifarík mistök sem við súpum seyðið af.
Seðlabankinn var á þessum tíma að reyna að halda hringekjunni gangandi. Það gerði hann alltof lengi. Vandinn er sá að þegar stefnir í gjaldþrot þá er iðulega reynt að halda skútunni á floti alltof lengi við óafsakanlegan kostnað. Þetta þekkja margir af biturri reynslu í ólgusjó efnahagslífsins.
Gjaldeyrislánin sem margir vildu
En Seðlabankinn var ekki einn um þessa hugsun. Á þessum tíma var um það rætt á Alþingi að taka gígantísk gjaldeyrislán til að halda kerfinu gangandi - slíkar tillögur komu frá flestum flokkum. Sem betur fer tókst þetta ekki því þessum gjaldeyrisforða hefði verið sturtað niður samstundis, gleyptur í heilu lagi af óseðjandi bankaófreskjunum.
En aftur að afglöpum Seðlabankans. Ég tel að þau liggi fyrst og fremst í hávaxtastefunni sem hér var fylgt árum saman, m.a. til að lokka fjármagn inn í hagkerfið, sbr. Jöklabréfin sem við síðan sátum uppi með illu heilli.
Hávaxtastefnan reyndist okkur skelfilega dýr og hafði hrikalegar afleiðingar fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki. Þessi stefna reyndist efnahagslegt glapræði á alla lund.
Seðlabankinn réttlætti vaxtastefnu sína með tilvísan í verðbólgumarkmið sem honum er gert að hafa að leiðarljósi lögum samkvæmt. Bankanum átti hins vegar að vera ljóst að verðbólgan var tilkomin vegna tímabundinnar verðeignabólu á fasteignamarkaði og tímabundinna stóriðjuframkvæmda með mikilli styrkingu krónunnar.
Átti að fæla braskara frá
Við hækkun húsnæðisverðs gat Seðlabankinn ekki mikið aðhafst, en við innflæði fjármagns gat hann gripið til ráðstafana. Hann hefði getað lækkað vexti og talað opinskátt um að gengið væri of sterkt með vísun í viðskiptahallann. Þannig hefði mátt fæla braskfjármagn frá landinu.
Vaxtastefnan gerði meira en að hvetja útlendinga til þess að gefa út jöklabréf, hún gerði einnig innlendum aðilum næsta ómögulegt að taka lán í ISK. Því fóru öll fyrirtæki landsins meira og minna að skuldsetja sig í erlendri mynt, og einstaklingar að miklu leyti líka.
Hávaxtastefna Seðlabankans eru hans stærstu mistök að mínu mati þótt ég taki undir með Eiríki Jónssyni að lánveitingar með veði í „ástarbréfum" bankanna höfðu að sjálfsögðu alvarlegar og afdrifaríkar afeliðingar. Þau ber hins vegar að skoða í framangreindu sögulegu samhengi.
Hlutafélagavæddur banki ekki sama og Seðlabanki Íslands
Aldrei hefur nokkur vafi leikið á því að íslenska ríkið greiddi sínar skuldir. ALDREI. Seðlabankinn er hluti af íslenska ríkinu. Það var Landsbankinn hf hins vegar ekki. Þess vegna á ekki að leggja Seðlabankann og Landsbankann að jöfnu! Alls ekki.
Deilan stendur um að hvaða marki íslenskir skattborgarar séu skuldbundnir til að standa skil á skuldum einkafyrirtækis. Alþingi hefur samþykkt fyrirvara við ríkisábyrgð á Icesave á þeirri forsendu að greiðsluskyldan sé véfengd. Þetta þekkjum við og einnig rök manna á borð við franska þingmanninn Alan Libietz (sem kom að smíði reglugerðar ESB um tryggingasjóð innistæðueigenda) og fleiri, sem hafa tekið undir þessar efasemdir. Libietz fullyrðir reyndar að aldrei hafi staðið til að gera skattborgara ábyrga. Tryggingasjóður fjármálafyrirtækjanna ætti að rísa undir sjálfum sér. Þetta hefur Eva Joly líka fullyrt.
Það er hins vegar líklegt að einhverjir hefðu litið svo á að tilefni hefði verið til skaðabótakröfu ef íslenska ríkið hefði ekki fullnægt skyldum sínum vaðrandi umrædda tilskipun.
Þar eigum við samleið
Þetta hafa Bretar og Hollendingar sem kunnugt er ekki viljað fá útkljáð fyrir dómstólum. Nú er reynt að ná niðurstöðu í samningum og hljótum við öll að vona að betri niðurstaða fáist en sú sem liggur á borðinu. Þar hljótum við Eiríkur Jónsson alla vega að vera sammála!