Er það rétt hjá Morgunblaðinu að allar umbætur komi að utan?
Leiðari Morgunblaðsins í dag ber yfirskriftina Umbætur að utan. Í leiðaranum er vitnað í Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sem í vikunni lagði fram á ríkisstjórnarfundi ramma fyrir framhald samningaviðræðna um viðskipti á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, svonefndra Doha-viðræðna.
Fögnuður yfir minni stuðningi við landbúnað
Í viðtali við Morgunblaðið hafði Halldór Ásgrímsson sagt, “að hæstu styrkir til landbúnaðar muni lækka.” Þetta er leiðarahöfundi Morgunblaðsins mikið fagnaðarefni og segir hann það vera “umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hve oft umbætur af þessu tagi koma að utan, þ.e. að við neyðumst til umbóta á ýmsum sviðum vegna aðildar að alþjóðasamningum. Ef íslenzkir stjórnmálamenn hefðu gert tillögur um að lækka þessa sömu styrki til landbúnaðar eru hverfandi líkur á því, að slíkar tillögur hefðu verið samþykktar. Ef þessi verður niðurstaða Doha-viðræðna verður lækkunin samþykkt hér.”
Í þessu samhengi er vert að íhuga tvennt. Í fyrsta lagi hafa Íslendingar tekið ákvörðun um stórfelldan niðurskurð til landbúnaðarmála án utanaðkomandi þrýstings. Þetta var gert í kjölfar svokallaðra Þjóðarsáttarsamninga í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Útgjöld hins opinbera til landbúnaðar árið 1990 (á verðlagi ársins 2002) námu 17,523 milljörðum , árið 1993 námu þau 12,271 milljörðum og árið 2002 var 11,296 milljörðum varið til landbúnaðarmála. Hitt atriðið sem vert er að íhuga er hvort þetta í raun eru mjög háar upphæðir miðað við umfang og mikilvægi landbúnaðar í íslensku þjóðlífi. Ekki þekki ég það land þar sem enginn stuðningur er við landbúnaðarframleiðslu. Öll lönd eiga hins vegar sín Morgunblöð sem þrýsta á niðurskurð í opinberum útgjöldum og samneyslu. Þegar almenningur hins vegar sér afleiðingar slíkra breytinga í hækkun á kjarngóðri landbúnaðarvöru, í breyttu og óheilnæmara neyslumynstri og röskun í dreifðum byggðum, eiga slíkar tillögur hins vegar ekki upp á pallborðið. Þá er gott að koma með samþykktir af erlendum fundum og stilla þjóðunum upp við vegg; koma sigri hrósandi erlendis frá og segja: Allir hinir eru að gera það.
Vangaveltur um framfarir
Þetta þykir leiðarahöfundi Morgunblaðsins vera hið besta mál og vitnar í EES samninginn sem hafi rutt brautina fyrir margvíslegar umbætur í íslensku viðskiptalífi: “ Aðild okkar að EES-samningnum þýddi, að við áttum engra kosta völ, og þess vegna voru tekin upp ný vinnubrögð á mörgum sviðum viðskiptalífsins. Hið sama hefur gerzt á sviði dómsmála og á fleiri sviðum þjóðlífsins. Af hverju eru umbætur sjálfsagðar ef þær koma að utan en ekki ef tillögur koma um þær hér heima fyrir? Eru þetta síðustu leifar af minnimáttarkennd fátækrar þjóðar, sem einu sinni var? Að einhverju leyti kann það að vera skýringin. Sennilegra er þó, að það séu hin öflugu sérhagsmunasamtök, sem koma í veg fyrir sjálfsagðar umbætur. Hagsmunasamtök ýmissa stétta og starfshópa eru mjög öflug hér og hafa haft mikil áhrif á gang mála. Þau geta stoppað umbótatillögur, sem verða til hér heima fyrir. Þau geta hins vegar ekki stöðvað umbætur, sem eru þáttur í alþjóðlegum samningum okkar.”
Söguskýring Morgunblaðsins stenst ekki skoðun
Við þetta er margt að athuga. Í fyrsta lagi má ekki gleyma því að það sem Morgunblaðið kallar umbætur og eru runnar undan rifjum Evrópusambandsins og okkur síðan gert að kyngja vegna aðildar Íslands að EES samningnum, eru mjög umdeildar. Nægir þar að nefna tilskipun í raforkumálum, sem ekki hefur átt sér marga stuðningsmenn hér innanlands bæði vegna þess að í eðli sínu er hún ekki hagstæð almennum neytendum og einnig vegna þess að hún hentar illa íslenskum aðstæðum. Mörg fleiri dæmi mætti nefna um þrýsting Evrópusambandsins á markaðsvæðingu grunnþjónustu samfélagsins, nokkuð sem er mjög umdeilt innan sambandsins sjálfs. Einmitt þess vegna þykir stjórnmálamönnum sem eru á markaðsbuxum heppilegt að taka ákvarðanir í þröngum fundarherbergjum í Brussel og mæta síðan heim með gerðan samning og kyrja síðan fyrrnefnt stef um að allir séu að gera það.
Hitt er þó alvarlegri rangtúlkun á sögunni að gefa í skyn að hér hafi ekki verið stigin framfaraskref nema undir svipuhöggum erlendis frá. Stærstu framfaraskerf sem Íslendingar hafa stigið á undanförnum árum á sviði atvinnumála og einnig félagsmála hafa verið að íslensku frumkvæði og nægir þar að nefna nýskipan í lífeyrismálum og fæðingarorlofi. Að þessu leyti stenst söguskýring Morgunblaðsins því engan veginn skoðun.