ER ÞAÐ SVONA SEM VIÐ VILJUM HAFA ÞAÐ?
Ef við gæfum okkur, að rannsóknarblaðakonan Vanessa Beeley, sem flutti erindi sl. laugardag um sína sýn á fréttaflurning af Sýrlandsstríðinu, væri persónuleg málpípa Assads Sýrlandsforseta...
Ef við gæfum okkur að ástralski fræðimaðurinn Tim Anderson, sem skrifaði bókina, The Dirty War against Syria, sem nú hefur verið þýdd á íslensku, væri ný-nasisti og verði stjórnarhætti í Norður-Kóreu og ...
Ef við gæfum okkur að ég væri Rússasleikja, „miðaldra karl með Rússablæti" ....
Ef við gæfum okkur að allt þetta væri satt og rétt (sem það núttúrlega ekki er!) ...
Gæti það engu að síður ekki staðist að þrátt fyrir þetta kunni Bandaríkin, Sádí Arabía og bandalagsríki þeirra að hafa beitt leppherjum til að koma á stjórnarskiptum í Sýrlandi?
Gæti það ekki líka verið að aldrei hafi raunverulega lokið afskiptum nýlenduveldanna af svæðum sem þau réðu og skipta enn máli í efnahagsreikningi þeirra og hernaðarlegum ítökum?
Gæti það ekki staðist að framvinda heimsmálanna hafi oftar en ekki verið knúin áfram af lygavélum og hagsmunatengdum samsærum?
Gæti það þá ekki verið að það sé hlutverk fréttamanna að koma auga á slík samsæri, hvort sem um er að ræða meint gjöreyðingarvopn í Írak (Bush jr. á fyrsta ríkisstjórnarfundi sínum: We are going to invade Iraq, find me the reasons!) eða falskar ásakanir tyrknesku stjórnarinnar á hendur Kúrdum til að skapa skálkaskjól til fangelsana og ofsókna?
Gæti verið að stríð séu ekki einvörðungu háð með vopnum heldur líka með „upplýsingamiðlun" og að þær „upplýsingar" séu stundum framleiddar af stríðandi öflum í því skyni að blekkja og afvegaleiða?
Gæti það verið hlutverk fjölmiðla að upplýsa um slík svik og þá af hálfu ALLRA sem í hlut eiga í stað þess að þagga slíka umræðu og gera það meira að segja tortryggilegt að stjórnmálamenn sæki fundi um þessi efni?
Að lokum þetta að sinni: Ríkisútvarpið og fleiri saka Vanessu Beeley um að elta uppi samsæriskenningar. En hvað vilja menn kalla þær trakteringar sem hún og aðrir sem vilja íhuga málin á hennar forsendum, fá í ýmsum íslenskum fjölmiðlum?
Í þessu samhengi velti ég því fyrir mér hvern skilning eigi að leggja í uppslátt Stundarinnar um komu forsætisráðherra á umræddan fund (https://stundin.is/grein/6392/forsaetisradherra-maetti-fyrirlestur-hja-studningskonu-assad-stjornarinnar/ ) og eftirfarandi ummæli þáttastjórnandans Egils Helgasonar: „En forsætisráðherra þarf auðvitað að gæta að því hvaða samkomur hún sækir. Hefur hún ekki ráðgjafa í utanríkismálum?"
Við fyrstu umhugsun hefði ég haldið að óhætt væri fyrir hvern sem er, líka forsætisráðherra, að sækja fund þar sem færð væru fyrir því rök að stríð í tilteknu landi kynni að eiga sér aðrar skýringar en þær sem okkur væru kynntar í fréttatímum fjölmiðlanna.
Í kúgunarþöggun er hins vegar enginn óhultur þegar vilji er til að grafa undan fólki: „Var á fundi með málpípu kúgara! Þarf frekar vitnana við?"
Er það svona sem við viljum hafa það?