Fara í efni

ER VERIÐ AÐ BIÐJA UM ÞÖGN?


Það er ekki laust við að mér finnist gæta tímaskekkju í íslenskri fjölmiðlum þessa dagana. Mér virðist sem mörgu fjölmiðlafólki ætli að takast illa að hrista af sér hrunið og þann hugsunarhátt sem því tengdist; ganga illa að stíga inn í nýjan tíma.
Ég skal reyna að skýra hvað ég á við. Þingflokkur VG hefur fangað athygli fjölmiðlanna að undanförnu. Í þingflokknum hefur verið tekist á um Magma, fjárlög, ESB-samningaferlið, AGS og sitthvað annað - að ógleymdu Icesave að sjálfsögðu. Allt áhugaverð efni hefði maður haldið. Nema hvað það er ekki efnisumræðan sjálf sem fjölmiðlarnir hafa sýnt mestan áhuga heldur fyrst og fremst að yfirleitt skuli vera uppi ágreiningur í þingflokki VG sem í ofanálag er ríkisstjórnarflokkur!

Stjórntækir hrunverjar

Sú var tíðin að til eftirbreytni þótti í stjórnmálaflokkum að þar ríkti fullkomin eindrægni. Ein skoðun um alla hluti, alltaf. Hvort sem bankar væru einkavæddir og fengnir vildarvinum í hendur, Síldarverksmiðjur ríkissins gefnar, rafmagseftirlitið í landinu afhent stjórnmálamanni til að hagnast á, Ísland gert að viljugu árásarríki á fjarlæga þjóð - alltaf var allt samþykkt einum rómi. Hönd spratt nánast sjálfkrafa upp til samþykkis, hvert sem tilefnið var. Allir lágu sem undir straujárni. Innan stjórnmálaflokkanna voru viðhorfin umsviflaust straujuð til samræmingar ef vottaði fyrir skoðanamun. Því betur sem til tókst í því efni, þeim mun "stjórntækari" þótti viðkomandi stjórnmálaflokkur og sá stjórnmálaforingi sem kunni að munda slík járn þótti mikill maður og undirlægjurnar undir hinum pólitísku straujárnum að sama skapi félagar til fyrirmyndar.

Stífpressaðir  og í takt

En bíðum nú við. Þarna er komin sjálf formúlan að hruninu. Þannig varð hrunið til þegar menn gengu samræmdum takti fram af brúninni - flottir, stífpressaðir.
Nú er þessi tími vonandi liðinn. En ekki er það nú alveg svo. Alla vega ekki í heimi fjölmiðlanna. Á fréttastofnunum leynast enn hrunverjar. Það er þeim sem finnst ágreiningur vera aðfinnsluverður, skítt með málefnið. Þú veist hvað ég á við Sigurjón: http://sme.midjan.is/2011/01/10/onugur-ogmundur/   ... og líka þú Egill: http://silfuregils.eyjan.is/2011/01/11/erfitt-i-vg/#comments 
Ég lít svo á að verkefnið sé að gera 21. öldina að tímaskeiði upplýstra, opinna og lýðræðislegra vinnubragða þar sem menn óttast ekki að hafa ætíð öll gögn uppi á borði og að síðan fari fram skoðanaskipti og ágreiningur til lykta leiddur í framhaldinu, ef því er að skipta. Til að þetta gangi upp mega menn ekki óttast ágreining, aðfinnslur, gagnrýni.

Þegar "stóru málin" eru rædd

Ekki hef ég neitt við það að athuga þótt samstarfsfólki í Samfylkingunni skuli hafa þótt andstaðan við að senda inn umsókn að ESB á sínum tíma bera vott um þröngsýni VG, eða þótt Róbert Marshall, svo tekið sé nýlegt dæmi, hafi þótt skorta pólitíska forystu við sandmokstur í Landeyjarhöfn, eða þótt Merði Árnasyni, samflokksmanni hans, þyki ámælisverð vegatollaárátta innanríkisráðherra VG - hinum sama ráðherra og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þingkonu Samfylkingarinnar þótti svo slæm tilhugsun að fá yfirleitt sem ráðherra að henni þótti rétt að fara með þennan harm sinn í fréttatíma. Slæmt? Nei. Mér þótti ekki heldur slæmt þótt sama þingkona sæi sig knúna til að skýra þjóðinni frá því í útvarpsþætti um síðustu helgi að hún væri orðin örþreytt á að fylgjast með erjum innan VG. Sumum fjölmiðlum þóttu þetta merk tíðindi sem ættu erindi við landsmenn. Svona er fréttamatið misjafnt. En það er nákvæmlega þetta sem varð mér tilefni þessara skrifa; það er þetta sem minnir svo á hrunið. Áhugi og mæða, mikil mæða, út af umbúðum. En enginn áhugi á innihaldi.

Enginn verði látinn gjalda skoðana sinna

Innan VG brenna málefnin líka á fólki, Icesave, Magma, AGS, fjárlög, fiskveiðikerfi, ESB -umsóknin og sitthvað fleira. Svo stór og brennandi hafa mönnum þótt sum þessara mála vera, og þau vera svo knýjandi fyrir þjóðarhag, að þeir hafa tekið um þau gagnrýna umræðu og jafnvel verið tilbúnir að stofna til ágreinnigs innanflokks. Slæmt? Nei, ekki þykir mér það. Eða hefðu menn fremur kosið  - og kjósa menn kannski enn - þögn um þessi mál?
Ótrúlega margir virðast gera það. Við nánari skoðun held ég þó að fáum finnist það í alvöru. Auðvitað viljum við opna og óttalausa umræðu. Óttalaus verður hún þó því aðeins að gætt sé að því að enginn sé nokkurn tímann látinn gjalda skoðana sinna. Það er hugsunin sem við eigum að rækta: Við þurfum að stuðla að opinni, gagnsærri, upplýstri umræðu. Það er lærdómurinn sem við eigum að draga af hruninu. Ég vona að okkur takist að læra þessa lexíu til fulls í VG. Ef það heppnast munum við verða leiðandi inn í nýja lýðræðisöld. Við eigum þó enn nokkuð í land. Eins og allir - eða flestir - aðrir sýnist mér.

Áfram með smjörið...

Í VG getum við þó glaðst yfir því að við eigum fólk með skoðanir og sannfæringu. Við hrjáumst ekki af doða, deyfð og áhugaleysi. Það er alla vega góð byrjun. Þess vegna segi ég, meira um Magma, AGS, Icesave, fjárlög, ESB, kvótakerfið ...!

Þessum sjónarmiðum hef ég reynt að halda loft í fjölmiðlum undanfarna daga. Dæmi:
Kastljós 6. janúar: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4545009/2011/01/06/0/
Smugan: http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/4881