Fara í efni

ERTU AÐ VERÐA NÁTTÚRULAUS?

Í kvöld voru haldnir magnaðir tónleikar í Laugardalshöllinni í þágu náttúruverndar undir kjörorðinu, Ertu að verða náttúrulaus?  Margir fremstu listamenn þjóðarinnar komu fram á þessum maraþontónleikum. Hinn magnaði KK reið á vaðið, síðan kom Björk og þá hvert stórnafnið á fætur öðru...og Bubbi Morthens hnýtti endahnútinn með kraftmiklu framlagi sínu. Ég geri ekki upp á milli listamannanna. Þeir voru góðir hver á sinn hátt. Á risaskjám voru birtar upplýsingar um hvert stefndi af völdum stóriðju- og virkjanastefnu ríkisstjórnarinnar; góðir og upplýsandi textar.

Þar var m.a. að finna nokkur vel valin ummæli ráðherra, þ.á.m. ráðherra umhverfis- og iðnaðarmála. Ekki tók ég eftir því að birt væru ummæli Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra frá því í gær. Í Kastljósi Sjónvarps lýsti hún því nefnilega hve mikill náttúruverndarsinni hún væri og sagði ríkisstjórnina vera að slá í gegn á heimsvísu fyrir framlag sitt til náttúruverndar:  "Við erum að vekja athygli um allan heim fyrir það hve við þykjum miklir náttúruverndarsinnar." Ég náði því ekki alveg hvort þetta væri bara vegna Kárahnjúkavirkjunar eða hvort Þjórsárverin, Skjálfandafljót, Skagafjarðarfljótin og Landmannalaugar væru einnig  inni í myndinni fyrir framsýni ríkisstjórnarinnar í náttúrvænum virkjunum sem hún nú vill færa upp á teikniborðið.

Valgerður iðnaðarráðherra sagði í Kastljósþættinum að auðvitað þyrfti alltaf að velja og hafna þegar virkjanir væru annars vegar en auðvitað þyrftum við að "nýta þessa grænu orku sem við eigum svo mikið af." Hér á iðnaðarráðherra við vatnsorkuna og vísaði sérstaklega til Kárahnjúka. Valgerður Sverrisdóttir virðist ekki gera sér grein fyrir því að ein meginástæðan fyrir gagnrýni á Kárahnjúkavirkjun er sú að framkvæmdin er ekki sjálfbær og því ekki græn í þeim skilningi að virkjunin dugir aðeins til skamms tíma og veldur varanlegum náttúruspjöllum. Þar að auki er náttúrlega rangt að við höfum "svo mikið af orku" eins og ráðherrann talar um. Ef við til dæmis ætlum að vetnisvæða, eins og gumað er af, þá verðum við að halda vel á spilum því slíkt er mjög orkufrekt og deginum ljósara að slíkt gætum við ekki gert samhliða því að afhenda áliðnaðinum raforku í þeim mæli sem ríkisstjórnin áformar.

Síðan heyrðum við hjá ráðherra iðnaðarmála gamalkunna tuggu um uppbyggingu og kraft á Austurlandi. Valgerður Sverrisdóttir verður að horfast í augu við þá staðreynd að deilan stóð aldrei um hvort fjármagn ætti að setja í atvinnuuppbyggingu á Austrurlandi heldur aðeins um hitt í hvaða formi það yrði gert. Ríkisstjórnin kaus að niðurgreiða starfsemi álrisans Alcoa í þeirri von að austfirskt atvinnulíf hagnaðist á því. Um efnahagslegar forsendur þessarar risafjárfsetingar, sem stofnað var til í nafni og á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, hafa menn miklar efasemdir svo ekki sé meira sagt. Reyndar telja flestir hagfræðingar, aðrir en þeir sem eru svo ógæfusamir að tengjast Framsóknarflokknum og starfa í nefndum á vegum hans, að þetta sé fullkomlega galin fjárfesting!

Augljóst er að þessi risafjárfesting hefur þegar valdið íslensku atvinnulífi verulegum erfiðleikum. Það sem við, gagnrýnendur þessara framkvæmda, vöruðum við er allt að ganga eftir – því miður: Þensla, gengi gjaldmiðilsins úr takti við íslenskan veruleika og þar með ruðningsáhrif gagnvart annarri atvinnustarfsemi sem er að hröklast úr landi fyrir vikið. Við vöruðum við því að stóriðjustefnan, sem samkvæmt yfirlýsingum Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar, ætti að leiða til þess að áliðnaður yrði þriðjungur af atvinnustarfseminni, myndi draga úr fjölbreytni í atvinnulífinu. Það er þess vegna magnað að heyra Valgerði ráðherra ræða einmitt þetta í fyrrnefndu Kastljósi. Þar sagði hún: "Auðvitað þurfum við meiri fjölbreytileika í okkar atvinnulífi." Hún sagði að sér fyndist "alltof fáir vera að hugsa um atvinnulífið – líka á Alþingi."

Já, það er nefnilega það. Ég lái ekki þáttastjórnanda í Kastljósi fyrir að þakka ráðherra fyrir komuna og reyna að ljúka þættinum, eða var það ef til vill eftir yfirlýsingar hennar um hve æskilegir vinnustaðir álver væru fyrir æsku landsins í framtíðnni, sem þáttastjórnandinn ákvað að slíta samtalinu?

Synd að Valgerður Sverrisdóttir, náttúruverndarsinninn að eigin sögn, skyldi ekki vera á tónleikunum í kvöld. Ég held að það væri æskilegt að ráðherrar tækju til umfjöllunar á að minnsta kosti einum ríkisstjórnarfundi spurninguna um hvort verið gæti að ríkisstjórnin sé á góðri leið með að verða náttúrulaus. Sennilega væri þó markvissara að spurt yrði hvort ríkisstjórnin væri að gera landið okkar náttúrulaust.