"ERTU EKKI ÓSKAPLEGA VINSÆL?"
Þetta er fyrissögnin á nýlegum pistli iðnaðar- og viðskiptaráðherra Íslands, Valgerðar Sverrisdóttur á heimasíðu hennar. Hún hafði setið í flugvél með manni frá skattaparadísinni New Jersey á Ermarsundi; hún á leið til Serbíu - ekki fylgdi sögunni hverra erinda. Hann hafði verið í heimsókn á Íslandi og hrifist mjög af einkavæðingu undangenginna ára og góðvild ríkisstjórnarinnar í garð stórfyrirtækja og efnafólks. Og hér sat hann við hliðina á sjálfum ráðherranun sem hafði verið einn helsti gerandinn í þessu mikla ferli. Ekki að undra að hinn gestkomandi maður spyrði þeirrar spurningar sem brann á vörum – bæði hans og viðmælandans, ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur: "Ertu ekki óskaplega vinsæl?"
En viti menn, nú varð ráðherra orða vant, mér "varð fátt um svör" svo vitnað sé í fyrrnefndan pistil hennar. Valgerður verður nú greinilega hugsi og veltir vöngum yfir því hvers vegna bæði hún og Framsóknarflokkurinn skuli ekki vera "óskaplega vinsæl" á Íslandi; bæði flokkurinn og hún séu búin að vera að gera alla þessa góðu hluti!
Greinilegt var að fundurinn í flugvélinni á leiðinni til Serbíu með New Jersey manninum hafði haft djúp áhrif á banka- og iðnaðarráðherra Íslands. Og "í kjölfarið", segir Valgerður ráðherra," fór ég að velta því fyrir mér hvort fólk væri almennt meðvitað um allt það jákvæða sem er að gerast í þjóðfélaginu." Og nú vísar hún í alls kyns álitsgjafa. Þeir segi að spilling sé minni á Íslandi en víðast hvar annars staðar. Aðeins Finnland og Nýja Sjáland standi okkur framar! Svo erum við búin að einkavæða svo mikið, segir Valgerður, Áburðarverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna, Steinullarverksmiðjuna og bankana. Og samkvæmt Freedom House sé frelsi fjölmiðla meira en nokkurs staðar annars staðar!
Ef "einhver heldur að þetta séu eintómar tilviljanir, þá er það mikill misskilningur". Auðvitað er þetta allt Framsóknarflokknum að þakka. Þetta byggir allt saman á "réttum ákvörðunum". Og áfram heldur
Ég ætla að leyfa mér að spyrja hvort skýringin gæti verið sú að þeim fari fjölgandi sem sjá í gegnum auglýsingaskrumið, hafi áhyggjur af skuldastöðu þjóðarinnar og vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Og gæti nú ekki verið að fólkið sem nú er er að missa vinnuna vegna ruðningssáhrifa af stóriðjustefnu Framsóknarflokksins hugsi þessa stundina ekki sérlega hlýlega til flokksins og ráðherra hans? Gæti hugsast að þarna sé að finna skýringu á því að Framsóknarflokkurinn og ráðherrar hans eru nú um stundir ekki "óskaplega vinsæl."