Eru fjölmiðlalögin stjórnarskrárbrots virði?
Birtist í Morgunblaðinu 01.07.04.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna höfnuðu þverpólitísku samstarfi um skipulag fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hafa talað fyrir því sjónarmiði að setja skilyrði fyrir því að atkvæðagreiðslan teljist marktæk. Við erum hins vegar mörg um þá skoðun að slíkt standist ekki stjórnarskrá Íslands og að sömu reglur eigi að gilda í þjóðaratkvæðagreiðslu og gildir í almennum kosningum. Í stað þess að reyna að ná þverpólitísku samkomulagi um aðkomu að málinu, skipuðu formennirnir einhliða vinnuhóp til að kortleggja það og undirbúa tillögur. Vinnuhópurinn reyndist húsbónda sínum hollur og segir í skýrslu sinni að "rík efnisleg rök" séu fyrir því að setja skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að hún teljist marktæk. Hins vegar séu áhöld um að slíkar takmarkanir standist stjórnarskrá Íslands! Um þetta segir í skýrslu starfshóps formanna ríkisstjórnarflokkanna: "Á hinn bóginn er ljóst að ekki er vafalaust að slíkur áskilnaður í lögum nú stæðist þær stjórnskipulegu formkröfur sem grein er gerð fyrir hér að framan..."
Áfram eru málin reifuð: "Annaðhvort stenst það áskilnað að setja slík fyrirmæli í almenn lög eða ekki án tillits til þess einstaka tilviks sem nú er staðið frammi fyrir." Og enn segir: "Starfshópurinn tekur þó fram, að þeim mun hóflegri sem takmörkun af þessu tagi er, þeim mun líklegra verður talið að hún fái staðist..." Eða með öðrum orðum, því vægar sem menn færu í sakirnar því líklegra að menn kæmust upp með brotið!
Nú spyr ég. Er þetta mál ekki útkljáð? Starfshópur sem skipaður er af hlutdrægum málsaðila, þeim sem vill setja atkvæðagreiðslunni skorður, kemst að þeirri niðurstöðu, að jafnvel þótt hann telji "rík efnisleg rök" fyrir slíku, þá sé það vafa undirorpið, "ekki vafalaust", að slíkt stæðist stjórnarskrá. Hitt er augljóst að almennar kosningareglur, þar sem gildir einfaldur meirihluti, stæðist ótvírætt stjórnarskrána. Um það deilir enginn. Er ekki augljóst að við veljum þann kostinn? Ef menn síðan telja "rík efnisleg rök" fyrir því að breyta reglunum, þá hefja menn undirbúning að því að breyta ákvæðum stjórnarskrár. Það mál yrði lögum samkvæmt að leiða til lykta á tveimur þingum.