ERU VERKTAKARNIR AÐ FLYTJA OKKUR TIL AUSTUR-EVRÓPU ?
Hér á landi var nýlega staddur hópur manna frá Mið-Evrópu. Þeir fóru víða og hrifust mjög af landi og þjóð. Reykjavík fannst þeim ágæt borg og falleg – eða hvað? Þeir spurðu hvað réði byggingarstílnum, hvort verið gæti að verktakar réðu miklu og þá ekki síst í seinni tíð. Reykjavík, sérstaklega mörg nýrri hverfi, minnti nefnilega um sumt á Austur-Evrópu kommúnistaáranna þegar byggð voru risahverfi einsleitra íbúðablokka til þess að koma þaki yfir höfuðið á miklum fjölda fólks á eins ódýran og skjótvirkan hátt og kostur var.
Þetta eiga byggingaverktakarnir sameiginlegt kommunum: Að vilja byggja hagkvæmt og ódýrt nema hvað verktakarnir vilja gera þetta til að geta hagnast sjálfir. Byggt ódýrt. Selt dýrt. Getur verið að fegurðarsjónarmið séu um of víkjandi í reykvískri byggingalist?
Þegar tekist hefur verið á um varðveislu gamalla húsa á undanförnum árum og misserum, kemur þessi afstaða verktakanna einnig til álita. Stundum gæti maður hugsað sér að gamall og lélegur húsakostur ætti að víkja fyrir nýjum. Ástæða er hins vegar til þess að óttast að eitthvað verra komi í staðinn; húsnæði sem reist er með það eitt í huga: Að byggja eins stórt og eins ódýrt og hægt er.
Hvað um það, ég neita því ekki að mér kom á óvart – óþægilega – þessi samanburður við austur-evrópskar iðnaðarborgir um miðbik síðustu aldar. Getur verið að byggingaverktakarnir séu að færa okkur inn í þessa veröld?
Glöggt er gestsaugað.