EVRÓPURÁÐIÐ OG RÉTTINDI BARNA
Mér við hlið Regína Jensdóttir, Bragi Guðbrandsson, Arnfríður Valdimarsdóttir, Kristinn Jóhannesson og Bergsteinn Jónsson.
Ég hef lengi verið mikill stuðningsmaður Evrópuráðsins. Þar á bæ einbeita menn sér að mannréttindum og náttúruvernd, svo áríðandi dæmi séu tekin,og ýmsum öðrum málefnum sem snerta grundvallarmál ; allt í takti við þá hugmyndafræði að samstarf ríkja eigi að vera af fúsum og frjálsum vilja, gagnstætt Evrópusambandinu sem hefur tekið upp strangt, miðstýrt tilskipanakerfi.
Um síðustu helgi sótti ég fund Evrópuráðsins um réttindi barna. Þessi ráðstefna var eins konar framhald á ráðstefnu sem ég sótti í Róm á síðasta ári. Sú ráðstefna hafði mikil áhrif á mig og þá ekki síst vegna þess að á henni komu fram ungmenni sem beitt höfðu verið kynferðislegu ofbeldi í æsku og sögðu sögu sína. Sérlega minnisstæður varð mér ungur franskur maður, Gael að nafni, sem sagði frá þrautagöngu við að fá mál sitt tekið fyrir dóm og þeim erfiðleikum sem hann þurfti að ganga í gegnum meðan á málsmeðferð stóð. En áður en að þessu kom hafði hann án árangurs beðið „kerfið" um hjálp. Ekkert svar, engin viðbrögð, enginn sem hafði tekið í útrétta hönd hans.
Í framhaldinu varð þetta mér tilefni - margoft - til að efna til umræðu við fulltrúa íslenska réttarkerfisins um hvort og hvernig tekið væri í leitandi útrétta, barnshönd sem bæðist hjálpar hér á landi; værum við nægilega vel vakandi?
Frá þessu sagði ég á ráðstefnu Evrópuráðsins og fór auk þess yfir allt það sem íslensk stjórnvöld aðhafast til að fullnægja sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu á börnum .
Þessi sáttmáli á sér nokkurra ára sögu. Upphafið var reyndar á ráðstefnu á sama stað og nú, í Mónakó, en þar var stefnan mótuð árið 2006. Árið eftir var gengið frá sáttmála utan um þessi stefnumið í Lanzarote á Spáni og er hann því iðulega nefndur Lanzarote-sáttmálinn. Fyrir Íslands hönd var skrifað undir 4. febrúar 2008 og hefur síðan verið unnið að því að fullgilda sáttmálann með viðeigandi lagabreytingum.
Ég hef nú kynnt í ríkisstjórn frumvarp sem sem styrkir réttarstöðu barna gagnvart ofbeldi í samræmi við sáttmálann. Er þar meðal annars kveðið á um strangari reglur er varða barnaklám - eða myndrænt ofbeldi gegn börnum - og einnig gert ráð fyrir að refsivert verði að mæla sér mót við börn í kynferðislegum tilgangi, t.d. í gegnum netið. Þá hefur ríkisstjórnin samþykkt tillögur þriggja ráðuneyta, Velferðarráðuneytis, Mennta- og menningarmálaráðuneytis, auk Innanríkisráðuneytisins um stórátak til vitundarvakningar um kynferðisofbeldi gegn börnum, sem einkum verður beint inn í skólastarf. Allt er þetta í anda samþykkta Evrópuráðsins.
Á ráðstefnunni í Mónakó var einnig gerð grein fyrir framlagi ungs fólks við mótun tillagna um nýja stjórnarskrá hér á landi. Ungur maður, Kristinn Jóhannesson, steig á svið og svaraði spurningum um þetta. Fórst honum það afar vel úr hendi og á hann lof skilið svo og aðrir þeir sem að undirbúningi komu.
Á ráðstefnunni voru saman komnir helstu sérfræðingar á þessu sviði í Evrópu og sumir lengra að komnir. Margir ræðumanna viku að frumkvöðulsstarfi Íslendinga með Barnahúsinu sem sett var á laggirnar 1998. Þar eru undir sama þaki ólíkir þættir rannsóknar á ofbeldi gagnvart börnum,skýrslutaka fyrir dómi og sálræn aðstoð. Fulltrúi Noregs sagði að Norðurlöndin væru smám saman að fara að fordæmi Íslands í þessu efni. Bragi Guðbrandsson forstöðumaður Barnahússins var sem fiskur í vatni í þessu umhverfi en hann hefur háð mikla baráttu í þágu Barnahússins og barnaverndarmála.
Ráðstefnan var í fræðandi og í henni fólst kröftug hvating til okkar að slá aldrei slöku við í baráttunni fyrir bættum réttindum barna. Það er sorglegt til þess að hugsa að kynferðislegt ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum í samfélagi samtímans. Við eigum öll að leggja lóð okkar á vogarskálarnar í baráttunni gegn því.