EVRÓPUSAMBAND GEGN LÝÐRÆÐI
Margir Íslendingar eiga sér þann draum æðstan að Ísland gangi í Evrópusambandið og helst af öllu að við tökum upp evru, gjaldmiðil hins rísandi Evrópuríkis. Þessu sama fólki finnst mörgu hverju að þá verst hafi verið troðið á lýðræði á Íslandi þegar ekki var gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda ætti áfram til streitu umsókn Íslendinga um að ganga inn í sambandið. Fæst af þessu fólki tók undir kröfur á síðasta kjörtímabili um að efnt yrði þá til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað þá að þess væri krafist að þjóðin yrði spurð hvort hún yfirleitt vildi sækja um aðild þegar umsóknin var send til Brussel. Sú ákvörðun að senda inn umsókn að þjóðinni forspurðri voru afdrifarík mistök af hálfu okkar sem stóðum að þeirri ákvörðun. Um þetta hef ég margoft fjallað.
Ólýðræðisleg samkunda
Vandinn við Evrópusambandið er hve ólýðræðislegt það er. Stjórn sambandsins er úr tengslum við þing aðildarríkjanna eins og margoft hefur komið fram og þing Evrópusambandsins fær litlu ráðið gagnvart Stjórnarnefnd sambandsins og gríðarlega öflugu embættismannakerfi.
Þeim fréttum er nú lekið úr þessu kerfi að ástæðan fyrir svívirðilegri framkomu við Grikki í skuldaþrengingum þeirra, sé sú að þjóðin leyfði sér í lýðræðislegri kosningu að hafna afarkostum Evrópusambandsins til lausnar skulda- og gjaldmiðilskrísunni. Breska blaðið Guardian hefur eftirfarandi eftir háttsettum embættismanni í Brussel: "Ef Grikkir hefðu samþykkt þessa kosti hefðu þeir fengið betri meðhöndlun en þeir fá nú eftir að þjóðin hefur hafnað þeim." Svona talar tyftari.
Seljið þið eyjarnar!
Rifjast nú upp hugmyndir ættaðar frá Þýskalandi, að Grikkjum beri að einkavæða hafnirnar sínar, þar á meðal í Píreus, og selja eyjarnar. Menn trúðu því varla þegar Merkel Þýskalandskanslari og aðrir æðstu stjórnmálamenn Þjóðverja orðuðu hugsanir á borð við þessa fyrir fáeinum mánuðum. En nú eru þær komnar fram í formlegum viðræðum allra æðstu stjórnmálamanna Evrópusambandsins við Grikki. Þeir vilja að gríska þingið ábyrgist hugsanlega fjárhagsaðstoð frá ríkjum lánadrottna þeirra með því að setja fimmtíu milljarða evra að veði í ríkiseignum sem verði innleyst með sölu og einkavæðingu ef ekki tekst að standa við alla samninga til hins ítrasta. Krafan um sölu á ríkiseignum og einkavæðingu stendur auk þess óháð þessu veði. Skyldi einhvern ráma í raddir í Hollandi og Bretlandi um að Íslendingar eigi nóg af fallvötnum og hverum sem hægt sé að nýta til að borga niður Icesave?
Krafist afsals á fullveldi
Erlendir fjölmiðlar slá upp þessum kröfum á hendur Grikkjum sem kröfu um afsal á fullveldi Grikklands. Í mínum huga er Evrópusambandið að sýna okkur grímulaust andlit sitt. Sú sýn er óhugnanleg þótt ekki komi hún mér á óvart. Eða skyldu menn nokkuð vera búnir að gleyma því hvernig Evrópusambandið stóð á bak við bresk og hollensk stjórnvöld þegar þau ætluðust til þess að Icesave skuldbindingar Landsbankans yrðu greiddar með okurvöxtum lögfestum af Alþingi Íslendinga! Þetta átti að knýja Íslendinga til að gera með hnífinn á barka okkar.
Eitraður kokteill
Flestir andstæðingar inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa fyrst og fremst beint sjónum að sjávarauðlindinni og yfirráðum yfir henni. Það er skiljanlegt og skynsamlegt að horfa til hennar þegar íhuguð er innganga í ESB. Ég hef hins vegar einkum horft á tvennt. Í fyrsta lagi mikla tilhneigingu til miðstýringar innan sambandsins og síðan á þá ofuráherslu á markaðsvæðingu þjóðfélagsins sem þar er í hávegum höfð. Þegar þetta tvennt fer saman er kominn eitraður kotteill: Miðstýrð krafa um markaðs- og einkavæðingu!
Víti til varnaðar
Aðförin að grísku lýðræði og grískum almenningi ætti að verða okkur öllum víti til varnaðar. Það er hárrétt sem hinn virti bandaríski þjóðfélagsrýnir Noam Chomsky hefur sagt, að ef um hefur verið að ræða óábyrga lántöku þá hafa líka verið á ferðinni óábyrgir lánveitendur. Og annar ágætur maður, nóbelsverðlaunahafinn Stiglitz, hefur bent á að nauðsynlegt sé að skoða lántöku Grikkja, á hvaða forsendum bankar, einkum franskir og þýskir, hafi lánað þeim, hverjir hefðu hagnast og hvernig með féð hefði verið farið. Þetta yrði að skoða áður en gengið yrði frekar á lífskjör almennings. Nú þegar atvinnuleysi á meðal ungs fólks í Grikklandi væri komið yfir 60% væri óðs manns æði að ráðast í stórfelldan niðurskurð. Í því sambandi skyldu menn hafa í huga að þegar hefur mjög mikið verið skorið niður og fer því fjarri að þeim niðurskurði sé lokið, sbr. nýjustu tilboð grískra stjórnvalda til að friða eigingjarna lánardrottna sína sem nú er komið fram að láta ekki stjórnast eingöngu af frekju og græðgi heldur einnig af pólitískri þráhyggju og drottnunargirni.
Okkar gæfa
Grikkjum á ég þá ósk til handa að þeir beri gæfu til þess að losa sig undan evrunni. Það var gæfa Íslands að vera laus og frjáls með sína smánuðu krónu sem gjaldmiðil í hruninu og eftirmálum þess. Krafan um fullveldisafsal Grikkja minnir á hve slæm örlög það eru að vera undirseld valdi evrópska fjármálakerfisins og pólitískum arftökum gömlu nýlenduherranna sem nú sitja á valdastólum á svipuðum slóðum og fyrir rúmri öld.