EYÐILEGGJANDI EINELTI FYRIR ÞOLENDUR OG GERENDUR
Einelti er alltaf eyðileggjandi.
Fyrst og fremst er einelti eyðileggjandi fyrir þann sem fyrir því verður.
En einelti er líka eyðileggjandi fyrir gerandann, framkallar það versta í honum, smækkar hann og lítillækkar.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur nú verið hrakin úr embætti barnamálaráðherra eftir að þrjár atlögur voru gerðar að henni, sú síðasta rætnust.
Fyrst sætti hún heiftarlegri gagnrýni fyrir að taka undir kröfur kennara í verkfalli. Það þótti mér afbragðsgott af hennar hálfu og tók undir með henni opinberlega (https://www.ogmundur.is/is/greinar/eg-stend-med-kennurum). Barnamálaráðherrann, sem nú er fyrrverandi, þekkir vel til kjara kennara enda verið þar í forystu. Hafa ber í huga að hún hafði ekki samningsumboðið á hendi fyrir hönd viðsemjenda kennara og var með yfirlýsingum sínum að mæta harðskeyttum kór stjórnmálamanna á þingi og í sveitarstjórnum auk aðila vinnumarkaðar sem hvöttu til harðar andstöðu gegn kennurum.
Síðan gagnrýndi hún dómstóla og sagðist ekki treysta réttarfarinu í landinu. Aftur var það EKKI ráðherra málaflokksins, það er að segja dómsmálaráðherra, sem hafði gagnrýni í frammi. Hér verður aftur að hafa í huga bakgrunn Ásthildar Lóu sem formanns Hagsmunasamtaka heimilanna um alllangt árabil. Þar hefur hún eflaust séð sitt af hverju, réttlátt og ranglátt, koma út úr dómssölum landsins. Menn geta deilt um tilefni ummæla hennar en að sjálfsögðu hefur hún fullan rétt á að viðra sjónarmið sín.
Þriðja aðförin og sú sem leiddi til afsagnar Ásthildar Lóu enda með því rætnara og ómerkilegasta sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum og fjölmiðlum er að grafa upp úr einkalífi hennar, og vel að merkja ekki aðeins á kostnað hennar sjálfrar, heldur einnig sonar hennar og barnsföður, upplýsingar sem eiga heima hjá þeim einum nema að þau sjái ástæðu til að færa þær inn í opinbera umræðu. Ásthildur Lóa gerði eitt rangt í því máli að mínu mati og það var að segja af sér ráðherradómi. Ég hef hins vegar fullan skilning á þeirri ákvörðun í ljósi þeirra ofsókna sem hún sætti og voru aldeilis ekki í rénun.
Eitt er umhugsunarvert í þessu máli og það er að svo virðist sem Ríkisútvarpið og Morgunblaðið hafi náð bærilega saman eftir erjur síðustu ára. Verður vart á milli séð hvor miðillinn gengur harðar fram í að gæða sér á óförum ráðherra og ríkisstjórnar vegna þessa máls og er eitthvað um það að miðlarnir vitni hvor í annan. Í það minnsta vitnar Moggi í RÚV með velþóknun. Er það nokkur nýlunda en þá ber að hafa í huga að mikið liggur við.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/22/timalina_og_trunadarsamskipti_oljos/
--------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/