Fara í efni

EYGÐU GÓÐA PÁSKA!

páskar 2
páskar 2
Sumir eru fundvísari á snjallar hugmyndir en aðrir. Að öðrum ólöstuðum hlýtur  Breki Karlsson að standa þar í fremstu röð. Það hefur hann margsannað með orðsnilli sinni.  

Í helgarblaði Morgunblaðsins eru nokkrir hugmyndaríkir einstaklingar beðnir um að búa til málshátt. Margir eru þeir skemmtilegir en vinninginn hjá mér fær málsháttur Breka. Hann kveðst vera leiður á kveðjunni eigðu góðan dag (have a good day).

Hann hafi hins vegar ákveðið að taka frasann lengra og umbylta honum yfir í málshátt með því að breyta einföldu i í y.

Og viti menn, við þetta fær kveðjan aðra og íslenskari merkingu: Eygðu góðan dag.

Þetta er ekki slæmt. Manni er óskað þess að sjá fram á góðan dag.

Að sjálfsögðu óska ég þess að þau sem þetta lesa eigi í vændum góða páskahelgi.

Þess vegna segi ég við þig lesandi góður: Eygðu góða páska.