FAGNAÐ MEÐ SIÐMENNT
Þegar ég kom til starfa í ráðuneyti dómsmála og mannréttinda, síðar Innanríkisráðuneyti, eftir sameiningu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála, þá nefndi ég strax tvo málaflokka sem ég vildi taka á hið snarasta með það fyrir augum að ráðast í lagabreytingar.
Annars vegar vildi ég setja reglur um spila-vítisvélar og happdrætti sem væru þannig úr garði gerðar að við væri unandi og sæmilegur sómi að - en eins og sakir standa búum við hér á landi við eitt lakasta regluverk sem þekkist. Þetta tókst ekki þótt jarðvegurinn hafi verið undirbúinn og frumvarp lagt fram sem byggði á miklu samráði og samtali allra þeirra sem að málum koma. Það voru vonbrigði. En kemur dagur eftir þennan dag.
Hitt forgangsatriðið sneri að lífsskoðunarfélögum og þá ekki síst Siðmennt, sem ég lít á sem ákveðna kjölfestu á þessu sviði. Markmiðið var einfalt: Að breyta lögum þannig að lífsskoðunarfélög öðluðust viðurkenningu á við trúfélög til að rækja tiltekin embættisverk,svo sem að gifta og grafa, ferma og gefa nafn. Siðmennt hefur að sönnu annast þessi verk en án lögformlegar viðurkenningar og án þess að njóta jafnræðis á við trúfélög hvað sóknargjöld áhrærir. Þetta tókst og er mér mikið gleðiefni.
Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp er í bland til að minna á hve glámskyggn maður getur verið á hluti sem maður telur vera augljósa og vart þurfa umræðu við. En þegar á hólminn kemur er reyndin svo önnur.
Ég hélt að allir myndu fallast á að koma spila-vítismálin í skárra umhverfi að því gefnu að reynt yrði að gera það í sátt. Á sama hátt hélt ég að vinna við nýja löggjöf um lífsskoðunarfélög yrði sem að drekka vatn. Hver í ósköpunum gæti verið því andvígur? Annað kom á daginn, en með markvissri umræðu - og þrautseigju þeirra sem hafa barist fyrir þessu réttlætismáli í áraraðir - tókst að koma því í höfn og nú fögnum við því. Við fögnum því sem áfanga í mannréttindabaráttu.
Það eru mannréttindi að fólk ráði því sjálft hvaða vettvang það kýs til að stunda mannrækt og andlega þekkingarleit eða spyrja tilvistarspurninga. Þess vegna reyndist nauðsynlegt á sínum tíma að útfæra trúfrelsisákvæði laga þannig að fólk sem flust hefur til landsins njóti þeirra mannréttinda að geta rækt trú sína, sama hvaða nafni hún nefnist.
Sá áfangi sem við fögnum hér í dag er síðan annar áfangi á þessari vegferð, en nú hefur Siðmennt - fyrst íslenskra lífsskoðunarfélaga - hlotið formlega skráningu sem slíkt á grundvelli þeirra laga sam Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári.
Siðmennt kennir sig við húmanisma og frjálsa hugsun, óháð trúarsetningum. Félagið hefur fyrir löngu unnið sér sess og virðingu og í reynd má segja að ríkið sé nú um síðir að gera að veruleika það sem þjóðin er fyrir löngu búinn að gera í reynd, að viðurkenna Siðmennt sem eftirsóknarvert, ábyrgt og uppbyggilegt samfélagsafl sem við viljum að sé til staðar í okkar samfélagi og eigi að njóta viðurkenningar sem slíkt.
Það skiptir máli að gæða líf okkar inntaki; að sýna tilfinningum virðingu. Við köllum ekki eftir traktorsgröfu til að jarða ástvin og látum þar við sitja. Við viljum sýna hinum látna og sjálfum okkur viðeigandi virðingu með athöfn. Við viljum nota áfanga í lífi okkar til að ræða siðræn gildi - við nafngift, fermingu og giftingu.
Við höfum reynslu af því úr okkar eigin sögu og mannkynssögunni, hvað hendir þegar samfélögin vanrækja hinar siðrænu og andlegu víddir tilverunnar. Sú reynsla er ekki góð.
Þetta gerði ég að umræðuefni fyrir viku síðan þegar ég afhenti Siðmennt bréf til staðfestingar á því að félagið hefði öðlast rétt sem lífsskoðunarfélag og ætla ég að leyfa mér að vitna hér í þau orð sem ég lét falla þar um þetta atriði.:
„Allar manneskjur og öll samfélög þurfa á andlegri næringu að halda. Í árþúsundir hafa trúarbrögð og heimspeki reynt að virkja hið góða með manninun.
Við vitum hvað gerist þegar slakað er á í þessum efnum, þegar næringin er engin eða hvatningin gengur beinlínis í gagnstæða átt við það sem við höfum reynt að læra á mörg þúsund ára vegferð. Græðgi er góð, sagði þekktur stjórnmálamaður í Bretlandi og flutti boðskap óheftrar fjármagnshyggju. Virkjum eignagleðina var, endurómurinn hér á landi. Og eftir þessu varð uppskeran. Hana þekkjum við. Vítin eru til að varast þau.
Mahadma Gandhi sagði að maðurinn sýndi siðferði sitt með breytni sinni. Líf mitt er minn boðskapur, sagði hann. Ég átti þess kost að heimsækja Gandhi safnið í Nýju Dehli á Indlandi nýlega, en það er í húsakynnum sem Gandhi bjó í undir það síðasta; átti þar góða stund með barnabarni hans, Töru Gandhi, sem færði mér að gjöf glerstólpa þar sem útlistaðar eru hinar sjö félagslegu syndir að mati afa hennar, hins mikla baráttumanns og friðarsinna. Í augum Gandhis þurfum við að varast siðlaus stjórnmál, auðsöfnun í iðjuleysi, samviskulausar nautnir, þekkingu án innihalds, viðskipti án siðferðis, vísindi án mannúðar, tilbeiðslu án kærleika - og fórnar."
Í mínum huga er það grundvallaratriði að allir hafi rétt til þess að velja sér trú, trúarbrögð eða trúleysi. Það er einfaldlega í samræmi við kall tímans - og auðvitað hefði það átt að vera kall allra tíma - að einstaklingar geti valið sér vettvang fyrir andlega þekkingarleit og mannrækt.
Það er staðreynd sem við þekkjum öll, hve gott og sameinandi það er að koma saman og láta minna okkur á hinar andlegu víddir lífsins.
Ég vona að ég sé ekki að taka óhóflega áhættu hér með því að vitna í sjálfan yfirguð víkinga Óðinn, þar sem hann leggur okkur lífsreglurnar í Hávamálum, - orðum hins Háa. En þar segir hann:
Ungur var ég forðum,
fór ég einn saman;
þá varð ég villur vega.
Auðugur þóttist
er ég annan fann:
Maður er manns gaman.
Þetta er ekki alvitlaust hjá Óðni og ef til vill hefur einhver góður húmanisti hvíslað þessu í eyra hans. Því flest sem við gerum er betra að gera í samfélagi, innan um annað fólk, sem við getum lært af og e.t.v. miðlað einhverju til. Þetta getur átt við um ýmis verkefni, en einnig, og ennfremur andlega þekkingarleit. Siðrænu gildin getur verið gott að ígrunda í einrúmi, en ekki eingöngu, því í samræðu getum við náð því að þroskast og þoka samfélaginu fram á við.
Um leið og ég ítreka hamingjuóskir mínar til Siðmenntar vil ég þakka félaginu þrautseigjuna og baráttu þess fyrir mannréttindum á Íslandi.
Sjá ennfremur: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28555