Fara í efni

FALLISTINN


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins  31.07/01.08.21.
Nokkrum sinnum á ævinni hef ég reynt að þreyta próf í frjálshyggjuhagfræði. Í hvert sinn hef ég fallið á prófinu.
Frjálshyggjuhagfræðin kennir að vel smurðu markaðsþjóðfélagi megi líkja við vél. Ef fiktað er í vélinni af kunnáttuleysi segi það fljótlega til sín í höktandi hagkerfi og þar af leiðandi þjóðfélagi sem hættir að hámarka velsæld. Látum alveg liggja á milli hluta velsæld hverra, enda kemur okkur það ekki við. Það hafi einmitt verið þegar menn fóru að trufla gangverkið í vélarrúmi samfélagsins með það að markmiði að búa til eitthvað sem héti réttlæti að fór að halla undan fæti.

Nóbelsverðlaunahafinn í frjálshyggjuhagfræði, Austurríkismaðurinn Friedrich A. Hayek, vakti á þessu athygli í frægri bók sem út kom um miðja síðustu öld og hét á frummálinu Der Weg zur Knechtschaft, Leiðin til ánauðar, í þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Út á þetta gengur sem sagt frjálshyggjuhagfræðin, að skilja gangverk markaðsþjóðfélagsins og læra að koma auga á hvenær afskipti af því eru þess eðlis að þau séu beinlínis truflandi, að ekki sé nú minnst á það ef afskiptin verða slík að vegferðin leiði til glötunar.

Þessa dagana verðum við vitni að sýnikennslu í frjálshyggjuhagfræði. Slíkar kennslustundir fylgja alltaf gerð kjarasamninga eða endurnýjun samninga. Þá ríður á að enginn falli á prófi.

Tregustu nemarnir eru þegar farnir að tjá sig um kaup og kjör, verðlag á vöru og þjónustu og þá einnig um vexti. Þeim er þá snarlega bent á að um vexti sé náttúrlega alls ekki hægt að semja, þetta eigi allt námsfólk að hafa lært í leikskólanum fyrir löngu síðan. Vextir séu verð fyrir leigu á peningum og eigi verðlagið að ráðast af framboði og eftirspurn. Reyni menn að setja þumalputtann í vaxtaákvarðanir þá sé voðinn vís og afleiðingarnar verstar fyrir þá sem verst standa að vígi í samfélaginu .

Tossarnir í bekknum hafa haldið því fram að ef húsnæðislán beri háa vexti þá taki það í pyngjuna hjá fólki sem sé að koma sér þaki yfir höfuðið. Við þetta hefur kennarinn byrst sig ögn og bent á að ef vextir séu lágir eigi efnafólk ekki annarra kosta völ en fara með peningana sína á hlutabréfamarkað þar sem betri ávöxtun sé að hafa. Það þýði að hlutabréf hækki, hinir efnuðu græði þá enn meira en áður og aukin fjárfesting þeirra í húsnæði fyrir allan gróðann hækki svo aftur húsnæðisverð. Kröfur verkalýðsfélaga um lága vexti valdi með öðrum orðum aukinni misskiptingu í þjóðafélaginu. Vilji verkalýðshreyfingin virkilega að þetta gerist og vill hún hærra húsnæðisverð? Því verði seint trúað.

Svo er því bætt við að sérstaklega sé þetta varhugavert á kóvidtímum þegar ekki hafi gefist ráðrúm til að “leiðrétta” eignarhald í þjóðfélaginu og er þá sennilega átt við að enn séu í rekstri fyrirtæki sem ættu með réttu að vera farin á hausinn. Skyldu það vera litlu fyrirtækin? Varla Marriot hótelin?

Þegar hér er komið sögu er ég náttúrlega löngu fallinn á prófinu og farinn að spyrja spurninga sem valda því að ég mun að öllum líkindum aldrei útskrifast úr hagfræðiskólanum. Til dæmis hef ég spurt hvers vegna ekki sé hægt að gera sömu kröfu til efnafólks og gerð er til launafólks um samfélagslega ábyrgð; að það sætti sig við minni ávöxtun á peningum sínum og hætti að sækja í hámarksgróða.

En hvað er þá rétta svarið á prófinu í frjálshyggjuskólanum? Rétta svarið er mér sagt að sé eftirfarandi: Ekki má hækka laun hinna lægstu því það raskar ró hinna hæstu og alls ekki lækka vexti þá geti sá lægsti ekki lengur komist yfir húsnæði. Best sé að láglaunafólk láti lítið fyrir sér fara, þá fari líka allt vel eða eins vel og hægt sé að ætlast til.

En þótt ég sé fallisti og kannski þess vegna, get ég ekki stillt mig um að spyrja lærimeistara markaðshyggjunnar, hvort ekki megi líta á það sem lögmál um láglaunafólk, svipað og þeir vilja hafa um hina efnameiri, að ef meira þurfi að taka úr launaumslaginu til þess að borga háa vexti þá hljóti að koma að því að setja verði fleiri krónur í umslagið.

Með öðrum orðum, að við endurskoðun samninga verði að hækka kaupið ef leyft er að hækka vextina.