Falsanir iðnaðarráðherra um rafmagnseftirlit.
Birtist í Mbl
Fyrir fáeinum dögum boðaði Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra til fundar með fréttamönnum til að kynna niðurstöður nefndar sem fjallað hefur um rafmagnsöryggismál í landinu. Nefndinni hafði verið falið að kanna afleiðingar þeirra breytinga sem orðið hafa í kjölfar þess að rafmagnseftirlitið var einkavætt.
Skýrslan ber áróðurskenndan titil en þar er vísað í „árangur“ ... af breyttu skipulagi, þótt þar sé að finna sitthvað sem orkar tvímælis eins og nánar verður vikið að.
Þegar knúið var á um skipan þessarar nefndar, en undirritaður átti þar nokkurn hlut að máli, höfðu borist miklar kvartanir um að rafmagnsöryggi væri víða í voða stefnt eftir að horfið var frá því að skoða hverja einustu nýja veitu í landinu, íbúð eða atvinnuhúsnæði og tekið upp fyrirkomulag þar sem einvörðungu er framkvæmd úrtaksskoðun, að lágmarki aðeins tíunda hver veita skoðuð af þeim sem tilkynnt er um en treyst á að rafverktakar hlíti í einu og öllu stöðlum og vinnureglum sem Löggildingarstofa setur þeim. Kvartanir og varnaðarorð um að þetta kerfi gengi ekki upp komu bæði frá rafverktökum, starfsmönnum rafveitna og notendum. Ég minnist þess að formaður Bændasamtakanna sagði mér að hann hefði af því þungar áhyggjur hve lítið eftirlit væri með nýjum rafmagnslögnum til sveita. Víða væri fúskað með rafmagn og segði það sig sjálft að eld- og slysahætta fylgdi slíkum vinnubrögðum. Úrtakskannanir dygðu ekki við slíkar aðstæður.
Ódýrara að skoða lítið en að skoða mikið.
Það segir sig sjálft að þegar aðeins lítið hlutfall nýrra bygginga sætir skoðun í stað þess að skoða þær allar þá næst kostnaður niður. Erfiðara er að skilja að öryggið aukist þegar úr eftirliti er dregið eins og iðnaðarráðherra og samverkamenn hans hafa haldið fram. Á þessa mótsögn hafa fjölmargir ábyrgir aðilar á þessu sviði bent. Þá hafa landsbyggðarmenn margir sýnt fram á að breytt fyrirkomulag hafi aukið miðstýringu frá Reykjavík; þar hafa aðsetur skoðunarstofurnar tvær sem nú sinna allri raflagnaskoðun í landinu. Hið miðstýrða vald sé í litlum tengslum við veruleikann í byggðum landsins.
Vegna gagnrýni af þessum toga var umrædd nefnd sett á laggirnar fyrir réttu ári. Að sjálfsögðu var hlutverk hennar að kanna alla málavöxtu rækilega. Það hefur hún hins vegar ekki gert eins og fram kemur í þungum áfellisdómi eins nefndarmanna, Bergs Jónssonar rafmagnsverkfræðings, fyrrverandi forstjóra Rafmagnseftirlits ríkisins.
Áfellisdómur sérfræðings
Í áliti Bergs segir meðal annars: „Því miður getur undirritaður ekki tekið undir fullyrðingu að ástand raforkumála sé gott og tryggi vel öryggi raforkunotenda. Til að setja fram slíka fullyrðingu hefði þurft miklu ítarlegri rannsókn.“ Þá kveðst Bergur Jónsson harma að nefndin skuli ekki hafa viljað kanna þá gagnrýni sem fram kom á landsbyggðinni betur en raun ber vitni og bendir hann á að gagnrýnisraddir á nýja skipan rafmagnsöryggismála hafi einkum borist frá stöðum utan höfuðborgarsvæðisins. „Verkefni hópsins var að kanna þær raddir víðar en gert var.“ Í álitsgerð sinni kemur Bergur Jónsson víða við. Hann telur það hafa verið óráðlegt að leggja niður raffangaprófun og störf eftirlitsmanna rafveitna hafi ekki verið rétt að leggja niður. Í því sambandi vísar hann til samskipta sinna við rafverktaka sem margir telji að samstarf við eftirlitsmenn hafi verið þeim til góðs, „…auk þess sem heimamenn eiga miklu auðveldara með að fylgjast með framkvæmdum á svæðum sínum og þar með því, að rafverktakar tilkynni verk, áður en þau hefjast og eftir að þeim lýkur.“ Þá bendir Bergur á að upplýsingar um samanburð á útgjöldum hafi verið fyrst og fremst frá tveimur aðilum. „Víðtækari upplýsingar hefðu hugsanlega gefið aðra mynd.“
Ágreiningur um heildarniðurstöðu
Hvað varðar ýmsar helstu niðurstöður vinnuhópsins, sem vann umrædda skýrslu, er að sönnu einhugur með öllum þremur nefndarmönnum og tekur Bergur Jónsson það rækilega fram í greinargerð sinni. Í niðurlagi álitsgerðar hans segir orðrétt: „Enda þótt undirritaður geti ekki samþykkt meginniðurstöðu í skýrslu vinnuhópsins, er þar engu að síður að finna ýmsa þætti, sem undirritaður hefur lagt áherslu á í starfi nefndarinnar. Fyrir undirrituðum vakir það eitt að mynda traustan og góðan grunn fyrir framtíðarskipan rafmagnsöryggismála, svo að vitnað sé í inngangskafla skýrslunnar. Vanda þarf til verka til að finna þann grunn.“
Eins og sjá má telur Bergur Jónsson að svo hafi ekki verið gert. En hvernig skyldi Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra fara með þá álitsgerð sem hér hefur verið vitnað til? Í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér segir orðrétt: „Niðurstaða vinnuhópsins er sú að núverandi ástand rafmagnsöryggismála og rafmagnseftirlit sé gott og að ný aðferðafræði og hugmyndafræði með notkun úrtaksskoðana, innri öryggisstjórnunar, faggiltra skoðunarstofa o.fl. myndi traustan og góðan grunn fyrir framtíðarskipan þessara mála. Bergur Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins, skilaði séráliti en tekur þó undir meginniðurstöður vinnuhópsins.“
Eins og hér hefur verið rakið er þetta ekki sannleikanum samkvæmt. Þetta er beinlínis rangt, fölsun, og ekki sæmandi iðnaðarráðherra Íslands.