FANGELSI Á BEINU BRAUTINA
Páll E. Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður dómnefndar, undirritaður, og loks verðlaunahafarnir frá Arkís, þeir Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson.
Í dag var skýrt frá úrslitum í samkeppni arkitekta um teikningar á nýju fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavíkurlandi. Arkitektastofan Arkís bar sigur úr býtum en íslenskar arkitektastofur voru í átta efstu sætunum af átján, sem þátt tóku í keppninni. Dómnefnd undir forystu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur lagði mat á umsóknirnar.
Það er gleðilegt að íslenskir arkitektar skuli hafa fengið þetta mikilvæga verkefni. Nú má sjá fyrir endann á hálfrar aldar þrautagöngu en það mun hafa verið um 1960 að farið var að kanna smíði nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei hefur hins vegar orðið að framkvæmdum. Nú hillir hins vegar undir að fangelsi rísi á Hólmsheiði og verði komið í notkun á árinu 2015.
bæklingi sem gefinn var út um samkeppnina af hálfu Innanríkisráuneytisins segir eftirfarandi í mínu nafni:
Bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Síðasta sérsmíðaða fangelsið, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var reist og tekið í gagnið árið 1875, fyrir tæplega 140 árum síðan. Fangelsið á Litla-Hrauni var upphaflega byggt sem sjúkrahús fyrir Suðurland en hætt var við þau áform. Landstjórnin keypti bygginguna árið 1929 og breytti í fangelsi eða „letigarð fyrir slæpingja og landshornamenn" eins og lesa má um í þingskjölum þess tíma.
Í ríflega hálfa öld hefur staðið til að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Um 1960 var Valdimar Stefánssyni sakadómara falið að gera tillögur að nýju fangelsi við Úlfarsá en þau áform döguðu uppi. Síðan hefur saga fangelsisbyggingarmála verið langdregin og einkennst af skýrslugerð, úttektum, athugunum og umræðum um ákjósanlega staðsetningu.
Staða fangelsismála á Íslandi hefur meðal annars verið gagnrýnd í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála hér á landi en þar er nefnt að elstu fangelsi okkar standist ekki nútímakröfur, biðlisti eftir fangelsisvist sé of langur og að ekki sé hugað nógu vel að stöðu kvenfanga og ungra afbrotamanna innan fangelsiskerfisins. Á ríkisstjórnarfundi 23. ágúst 2011 var samþykkt að minni tillögu að gera endurbætur í fangelsismálum og efna í því skyni til opinnar hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á seinni hluta árs 2012, að fangelsið verði tekið í notkun 2015 og á sama tíma verði lögð niður starfsemi í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og í Kópavogsfangelsi.
Fangelsun fólks er ekki einfalt mál og líklega eitt mesta inngrip í líf fólks sem stjórnvald framkvæmir í þvingunarskyni. Að lokinni refsingu snýr fangi aftur út í samfélagið. Það er mín skoðun að tryggja verði föngum örugga og vel skipulagða afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og að skapað verði umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín.
Nú liggur fyrir niðurstaða í samkeppni um hönnun fangelsisbyggingar en dómnefnd hefur síðustu vikurnar farið ofan í saumana á tillögum sem bárust og valið úr eina sem talin er þess verð að byggja eftir. Ég þakka dómnefnd vel unnin störf við það vandasama verk að velja tillögu að nýrri fangelsisbyggingu. Þar með förum við að sjá fyrir endann á þessari áratuga löngu raunasögu. Tími orða er liðinn og tími athafna runninn upp.
Nokkrar slóðir:
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28092
http://www.ruv.is/frett/arkis-hannar-nytt-fangelsi
http://visir.is/fangelsid-a-holmsheidi---arkis-sigradi/article/2012120609484