FARSÆLD Á KOMANDI ÁRI ER UNDIR OKKUR SJÁLFUM KOMIN
Auðvitað er margt í tilverunni sem við ráðum ekki við. Heilsufar, slys og utanaðkomandi vá af ýmsu tagi er að mestu leyti utan okkar valdsviðs ef svo má að orði komast.
Sama gildir um ýmsar gjörðir stjórnavalda sem óþægilega oft ganga gegn almannavilja. Þar fær einstaklingurinn litlu ráðið.
Og þó.
Þegar einstaklingarnir koma margir saman þá kemur að því að á þá verði hlustað. Það kennir sagan. En björninn er aldrei endanlega unninn. Reynslan kennir að flestum byltingum er stolið tíu sekúndum eftir að þær heppnast. Sú bylting sem ég sækist eftir mætti kalla vakningu - almannavakningu – og það á við um slíka vakningu sem aðrar: einu sinni vakandi alltaf vakandi, með öðrum orðum, byltingin þarf að vera viðvarandi.
Sú var tíðin að almenningur reis upp og krafðist þess að fallið yrði frá áformum um að koma á fót kerfi skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkuflauga í Evrópu. Almenningur hafði sitt fram og á níunda og tíunda áratug síðustu aldar dró úr vígvæðingu í Evrópu. Þegar Sovétríkin voru liðuð í sundur og Varsjárbandalagið látið heyra sögunni til í byrjun tíunda áratugarins komust stórveldin að samkomulagi um að haldið yrði áfram á braut afvopnunar og spennuslökunar. Þessi fyrirheit sviku Vesturveldin, eflaust að undirlagi vopnaiðnaðarins sem átti, og á enn, gífurlegra hagsmuna að gæta að stöðugt sé alið á tortryggni og óvild. Án haturs og óvildar tekst ekki að selja vopnin. Ráðist var í stórfellda útvíkkun NATÓ með tilheyrandi víðgvæðingu sem ekki er séð fyrir endann á. Sorglegt er að vita til þess að Ísland skuli hafi gerst afgerandi í stuðningi við þessa geigvænlegu þróun. Sama á við um hin Norðurlöndin eins og vikið hefur verið að á þessari síðu. https://www.ogmundur.is/is/greinar/norraen-rettlaetiskennd-tekur-breytingum
Mikilvægt er að fylkja liði með öflum sem nú eru að skjóta upp kollinum víða um lönd gegn hernaðarhyggju og fylgispekt við auðvaldsöfl heimsins. Þessar hreyfingar hafa vindinn enn í fangið. Siglingin er erfið en skútan mun ná til hafnar því margt á eftir að breytast.
Gleymum því aldrei að mannkynssögunni er ekki lokið!
Hér heima þarf að vinda ofan af kvótakerfinu. Kerfið var hringt inn í Kauphöllina á nýliðnu ári við mikinn fögnuð fámenns hóps sem nú er tekinn til við að arfleiða börn sín að eignum þjóðarinnar. Ekki verður snúið til baka heyrist stundum sagt. Það verður hins vegar að snúa til baka og það mun gerast þótt síðar verði.
Gleymum því aldrei að mannkynssögunni er ekki lokið!
Sama horfum við upp á í orkumálum. Þar eru fjárgróðaöfl smám saman að læsa klóm sínum í orkuauðlindir þjóðarinnar. Varnaðarorð þeirra sem hafa mótmælt því að við innleiddum orkustefnu Evrópusambandsins hafa nánast verið hlegin út af borðinu eins og margir muna sem fyldust með umræðunni um Orkupakka 3. Fólk sem aldrei hafði lesið sig til um þessi mál hæddi og spottaði þá sem vöruðu við afleiðingum markaðsvæðingarstefnunnar. Nú er komið á daginn að varnaðarorð gagnrýnenda áttu við rök að styðjast – því miður. Þarna þarf að vinda ofan af öfugþróun. Það verður erfitt en það mun gerast þótt síðar verði.
Gleymum því aldrei að mannkynssögunni er ekki lokið.
Margt mætti tína fleira til þar sem þörf er á vakningu og aðgerða til að knýja stjórnvöld til að nálgast almannaviljann.
Það sem gerir lífið bærilegra er svo aftur margt. Íslenskt vísindadfólk lætur að sér kveða og íþróttafólk gerir garðinn frægan. Þá halda listamenn okkar merki bjartsýni hátt á loft. Tónlistarfólk, rithöfundar og ljóðskáldin næra andann og vekja með okkur trú á framtíðina. Þökk skulu þau öll hafa og allar þúsundirnar sem vinna að því dag hvern að gera samfélagið betra og öflugra.
Þetta eru okkar gæfu smiðir.
Eg óska öllum farsældar á komandi ári.