FASTUR Í FORTÍÐ
Þorsteinn Pálsson skrifar að jafnaði góða leiðara. Yfirleitt skrifar hann mjög góða leiðara. Ekki alltaf þó. Leiðarinn í Fréttablaðinu í dag var ekki að öllu leyti góður. Ritstjórinn staðhæfir að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking þyrftu lítið að slá af til að ná saman. Miklu minna en VG og aðrir flokkar. Þetta kann að vera rétt. En hvar skyldi fyrrum forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóri Fréttablaðsins bera niður máli sínu til staðfestingar? Það er á sviði utanríkismála. Í utanríkis- og varnarmálum þyrfti VG að gefa eftir í grundvallaratriðum, segir hann, til að ná saman við aðra.
Hver eru grundvallarmálin í utanríkismálum? Grundvallarmál er hvort við fylgjum George W. Bush og Tony Blair til innrásar í Írak og gerumst staðföst stuðningsþjóð innrásarinnar. Þetta er grundvallarmál. Það er grundvallarmál hvort við höldum á lofti merki friðar eða árásar- og stríðsfánum. Það er grundvallarmál. Er VG á öðru máli en þjóðin í þessum efnum? Annað sem upp hefur komið er "varnarsamstarf" við Norðmenn. Þar er skrifað undir óútfylltan tékka nokkrum dögum fyrir kosningar og gert samkomulag um að flétta saman landhelgisgæslu og björgunarstörfum annars vegar og heræfingum hins vegar. Grundvallaratriðið hér snýr að lýðræðinu: Að slíka samninga eigi að ræða við þjóð og þing áður en undirritunarpenninn er mundaður.
Ég hef grun um að Þorsteinn Pálsson sé að hugsa um allt aðra hluti. Ég held að hann sé að hugsa um Varsjárbandalagið og Nató. Ég held að hann sé á öldinni sem leið. Varsjárbandalagið er liðið undir lok Þorsteinn og Nató er að breytast. Nú er ógn við eitt ríki talið vera ógn við öll ríkin í Nató í stað gömlu formúlunnar um að árás á eitt sé árás á öll. Hvaða ríki er líklegast að verði ógnað? Skyldi það ekki vera það ríki sem ásælist auðlindir annarra og er ranglátt í gjörðum sínum? Skyldu það ekki vera Bandaríkin? Og þá liggur beint við að spyrja hvort það þjóni hagsmunum Íslands að tengjast náið slíku ríki í sameiginlegri utanríkispólitík? Er ekki rétt að ræða það – fordómalaust?
Ég beini þeirri áskorun til ritstjóra Fréttablaðsins. Til að slík umræða geti farið fram mega menn ekki vera fastir í fortíðinni. Því miður sýnist mér það vera hlutskipti ritstjórans – alla vega í leiðaranum í dag.