Fara í efni

FELLUM VALDASTÓLANA

 

(Myndir úr umfjöllun Heimildarinnar 4/4-10/4)

“Hvað ætlar þú að kjósa Ögmundur minn? spurði mamma mig þegar sveitarstjórnarkosningar nálguðust vorið 1982. Hún var ekki vön að spyrja svona, þannig að ég þóttist vita að eitthvað byggi undir…”

Þetta eru upphafsorðin í Rauða þræðinum, bók sem fjallaði um þann þráð sem lífsviðhorf mín eru fléttuð í. Rauði þráðurinn kom út 2022.

Og aftur fær móðir mín orðið í lok fyrsta kafla bókarinnar:

Og nú aftur að mömmu, hvað ætlarðu að kjósa í vor sonur sæll, spurði hún vorið 1982.
Ætli ég kjósi ekki Fylkinguna eða Alþýðubandalagið, þann flokk sem ég tel lengst til vinstri,
svaraði sonurinn. Ósköp ertu mikið íhald Ögmundur minn, sagði mamma þá, nú er lag að kjósa Kvennaframboðið. Þær segjast vilja fella valdastólana, það mun gagnast körlum jafnt sem konum, þetta er framsýn og góð hugsun!
Og um vorið kaus ég eins og mamma lagði til. Svo liðu nokkur ár og kvennahreyfingin þróaðist eins og gjarnan gerist í stjórnmálaflokkum þegar þeir komast af barnsaldri. Hætt var við að fella valdastólana heldur skyldi þess í stað setja jafn margar konur á þessa stóla og karla. Ef það tækist væri sigurinn unninn.
Þar með varð kvennahreyfingin að kvótahreyfingu. Slíkar hreyfingar hafa aldrei höfðað til mín. Það breytir því ekki að kvennabaráttan í þessum farvegi átti eftir að hafa gríðarleg áhrif til breytinga. Ég hef alla tíð tekið ofan fyrir hugsjónafólki sem berst fyrir verðugum málstað þótt ég kunni að vera aðferðinni ósammála. Ég hefði hins vegar kosið að áherslan hefði verið sú sem Kvennaframboðið hafði í upphafi, áhersla á jöfnuð sem gagnaðist öllum, körlum jafnt sem konum.”

Á síðustu áratugum hefur margt breyst í íslensku þjóðfélagi til góðs. Þar á meðal hefur staða kvenna í atvinnulífinu gjörbreyst að því leyti að ekki er stigið á þær í þeim mæli sem áður var. Þó eru þar skref óstigin og breytinga enn þörf. Sennilega þarf konu til þess að skilja til fulls hvað það helst er sem enn er ábótavant í umgengnisháttum karla gagnvart konum.
Hvað stjórnunarstörf snertir hefur hins vegar margt lagast og á sumum sviðum gott betur eins og fram kom í umfjöllun Heimildarinnar í byrjun mánaðarins.

En mér varð hugsað til þess þegar ég fletti blaðinu sem sagði frá sigurgöngu kvenna í metorða- og stjórnkerfi landsins að sú kvennabylting sem ég hef horft til með aðdáun er ekki sú sem einblínir á völd og valdastóla þótt þar kunni sýnileiki vissulega að skipta máli. Framar öllu má ekki gefast upp við það sem byltingarkonur fyrr og síðar hafa viljað – og þar átt samleið með mörgum körlum - nefnilega að fella valdastólana.

 

-------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/