FIKT TENGT FINNI
Sæll Ögmundur.
Mig langar til að biðja þig að birta litla frétt sem var á netsíðu viðskiptablaðs Morgunblaðsins, mbl.is í fyrradag og spyrja þig hvort þú skiljir þessa frétt. Fyrirsögnin hjá Morgunblaðinu var sú sama og ég bið þig um að hafa á þessu lesendabréfi: "Fikt, einkahlutafélag sem er fjárhagslega tengt Finni Ingólfssyni, stjórnarmanni í bankanum og forstjóra VÍS, keypti í gær 76 þúsund hluti í KB banka á genginu 928. Verðmæti bréfanna var því um 70 milljónir króna. Í tilkynningu til Kauphallar segir að Finnur eigi enga hluti í bankanum en fjárhagslega tengdir aðilar eigi 28,4 milljónir hluta eftir þessi viðskipti. Að framvirkum samningum meðtöldum eru hlutirnir um 30 milljónir talsins sem félög tengd Finni eiga í KB banka. Markaðsvirði þeirra hluta er um 28 milljarðar króna. " Hér er svo netslóðin á fréttina: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1183319
Ég segi bara þetta: Ef gott var að standa nærri kjötkötlum gamla Sambandsins í skjóli Framsóknarflokksins þá bliknar það í samanburði við að njóta góðs af örlyndi flokksins þegar hann hefur úthlutað þjóðareignum handa flokksbroddum til að braska með. Sumir þeirra eru að flytjast úr landi með auðinn til að braska með hann þar eins og nýlegt dæmi af Ólafi Ólafssyni sannar. Hann er að selja Essó, sem hann á orðið næstum prívat og sagði að kjörið væri fyrir nýja eigendur að fara að huga að því að fjárfesta í raforku og vatni!
Haffi
Heill og sæll Haffi og þakka þér fyrir bréfið. Hvort ég skilji það sem er að gerast skal ósagt látið að öðru leyti en því að ég sé eins og þú gerir, hvernig pólitískir gæðingar ríkisstjórnarinnar mala gull á einkavæddum þjóðareignum. Þessir aðilar fara síðan út fyrir landsteinana með afraksturinn þar sem þeir taka þátt í darraðardansi heimskapítalismans sem er í óða önn að sölsa undir sig einkavæddar samfélagseignir sem streyma út á markaðstorgið fyrir tilstilli skoðanasystkina þeirra Halldórs og félaga.
Kveðja,
Ögmundur