Fiskifræðingurinn
Forsætisráðherra er sitthvað til lista lagt. Hann stundar pólitík, skrifar sögur og nú er hann kominn á kaf í fiskifræði. Hann lýsti því yfir á fundi norður í landi fyrir nokkrum dögum að óhætt væri að auka þorskkvótann um þrjátíu þúsund tonn á næsta ári. "Byggir þetta á yfirlýsingu frá Hafrannsóknarstofnun", spurðu fréttamenn. "Nei, það er ég sem er að segja ykkur þetta", sagði hinn nýbakaði fiskifræðingur. Þegar farið var að skoða málin niður í kjölinn kom þó í ljós að fiskifræðingurinn var að hita upp gamla lummu. Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um ástand fiskistofna frá í fyrra (Aflahorfur fiskveiðiárið 2002/2003, útg. júní 2002) kemur fram, að samkvæmt þeim gögnum sem þá lágu fyrir, megi gera ráð fyrir rúmlega þrátíu þúsund tonna aukningu í þorskveiðum árið 2004. Þetta má sjá á blaðsíðu 25 í skýrslunni. En hún er frá í fyrra. Enn á eftir að meta ástandið núna og ráðleggja fyrir komandi ár á gundvelli þess mats. Forstjóri Hafró sagði að sú vinna stæði yfir og skýrslu væri að vænta í maí. En hvers vegna beið fiskifræðingurinn gjöfuli ekki eftir skýrslu Hafró? Það er von að spurt sé. En til að skilja svarið verðum við að vita hver er sérgrein þessa fiskifræðings. Hann er sérfræðingur í pólitískri fiskifræði. Í þeirri vísindagrein er það lykilatriði að segja hlutina í réttu samhengi; allt stendur og fellur með samhenginu. Það þurfti pólitískan firksifræðing til að sjá að þessar yfirýsingar gátu ekki beðið. Sjávarútvegsráherrann, sem einnig er meðvitaður um samhengi hlutanna, staðfesti þetta í fréttaviðtölum. Samkvæmt hans skilningi var um að ræða fréttir sem væru orðnar úreltar eftir 10. maí. Þann dag er kosið. Það er gott til þess að vita að við eigum menn sem kunna að taka faglega og fræðilega á málum.