Fara í efni

FISKVEIÐISTJÓRNUNARKERFIÐ: UPPSTOKKUNAR ÞÖRF

Niðurskurður aflaheimilda kemur eins og reiðarslag fyrir mörg byggðarlög. Ekki að undra að mikil og tilfinningaþrungin umræða skuli kvikna í þjóðfélaginu enda þarf að spyrja grundvallarspurninga við slíkar aðstæður. Gæta þarf að því að rugla ekki saman ólíkum þáttum. Eitt eru rannsóknir sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, annað er það fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við. Þegar ráðleggingum fiskifræðinga er hrint í framkvæmd skarast hins vegar þetta tvennt því fiskveiðistjórnunarkerfið skapar þær skorður sem ráðgjöfum okkar og sérfræðingum eru settar.
Nú fjölgar í hópi efasemdarmanna um það stjórnkerfi í fiskveiðum sem verið hefur við lýði.  Kvótakerfið sem átti að gera tvennt í senn, stuðla að fiskvernd og hagræðingu í sjávarútvegi hefur brugðist. Margir þeirra sem vilja hlíta ráðum sérfræðinga okkar á Hafrannsóknarstofnun til hins ítrasta eru komnir með efasemdir um að jafnvel þótt gengið yrði lengra í niðurskurði á aflaheimildum en ráðlagt er af þeirra hálfu, þá myndi það ekki hafa tilætluð áhrif, einfaldlega vegna þess að reglustrikuaðferðirnar sem beitt er samkvæmt kerfinu skili ekki tilætluðum árangri varðandi fiskverndina. Þar komi ýmsir skafankar kvótakerfisins við sögu. Miklu meiri áherslu þurfi að leggja á það en nú er gert að huga að því hvar sé veitt og hvernig. Jón Bjarnason, þingmaður VG kastaði fram þeirri hugmynd í fréttaviðtali í vikunni sem er að líða, að kominn væri tími til að færa landhelgina út að nýju. Átti hann þar við þá tegund vistvænna smábátaveiða sem leyfð yrði innan hinnar nýju landhelgi jafnframt því sem stórtækari veiðarfærum yrði úthýst þaðan. Þetta er hugsun í anda stefnu VG varðandi fiskveiðistjórnunina. VG hefur viljað vinda ofan af kvótakerfinu og setti flokkurinn fram ítarlega stefnu um hverning þessu skyldi framfylgt fyrir nokkrum árum og hefur hún reglulega verið tekin til athugunar og endurskoðunar. Í grundvallaratriðium hefur hún hins vegar verið óbreytt, andvíg því kvótakerfi sem við búum við og með vistvænar veiðar og sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
En hvað með hagkvæmni og hagræðingu? Kvótakerfið hefur vissulega stuðlað að tilfærslum og án efa hagræðingu að einhverju leyti. Í miklu fleiri tilvikum hefur kvótakerfið hins vegar rænt heil byggðarlög lífsbjörginni, gert stóra hópa að leiguþrælum kvótahafa sem fyrir sitt leyti hafa hagnast óumræðilega á hinni sameiginlegu þjóðarauðlind. Kvótakerfið hefur þannig leitt hrikalegt ranglæti yfir þjóðina.
Nú þegar á daginn kemur – nokkuð sem margir hafa um árabil hamrað á - að kerfið hafi ekki heldur skilað tilætlaðri vernd fyrir fiskistofnana þá er ekki lengur um annað að ræða en taka allt fiskveiðistjórnunarkerfið til gagngerrar endurskoðunar.
Þingflokkur VG er reiðubúinn að taka þátt í slíkri vinnu. Sú vinna þarf þá líka að vera opin og allt þarf að liggja undir.