FJÁRFESTINGARMÖGULEIKAR FRAMUNDAN Í VATNI SEGJA FRAMSÓKNARFJÁRFESTAR
Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Olíufélagsins kom fram í sjónvarpsfréttum í gær til að leggja áherslu á siðferði í viðskiptum. Til stendur að eigendur Olíufélagsins, en þar er hann sjálfur fyrirferðarmestur, selji félagið en slíkt megi alls ekki gerast, segir Ólafur, í "reykmettuðum bakherbergjum". Nú veit ég ekki hvort Ólafur Ólafsson er reykingamaður en hitt veit ég að sjálfur hefur hann notið góðs af baktjaldamakki Framsóknarflokksins á undanförum árum. Sjálfur er hann þar í innsta hring og naut gjafmildi þeirra Halldórs, flokksformanns og Valgerðar, viðskiptaráðherra þegar þau gáfu Búnaðarbankann.- eða til að vera nákvæmari, "seldu" hann á gjafprís. Í kjölfarið hafa njótendur þessa pólitíska örlætis makað krókinn ótæpilega. Það er varla nema fyrir innvígða að fylgjast með ferli fjármálabrasksins en eftirfarandi glefsur úr nokkrum fréttum Morgunblaðsins á síðasta ári segja sína sögu:
Morgunblaðið 17. mars.: " KJALAR ehf., félag í aðaleigu Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa, hefur eignast 55,7% hlut í Keri hf., sem er aðaleigandi Olíufélagsins hf. Félagið átti áður 41% í Keri... Spurður hvort áhugi sé á að eignast stærri hlut í Keri segir Ólafur: "Við erum alveg tilbúnir til þess, verði okkur boðið það og ef menn eru að tala um einhverja skynsemi í þeim viðskiptum.""
Morgunblaðið, 14. júní : "Kjalar ehf. hefur í dag keypt hlutabréf í Eglu hf. að nafnverði kr. 2.562.043 eða 23,12% eignarhlut í félaginu. Kaupverð hlutanna var kr. 5.501.000.000. Eigendur Eglu hf. eftir viðskiptin eru Ker hf. (68,04%), Kjalar ehf. (27,93%) og Fjárfestingarfélagið Grettir hf. (4,03%). Eignarhlutur Eglu hf. í Kaupþingi banka hf. er 63.733.352 hlutir eða 9,65% af heildarfjölda hluta. Félagið á kauprétt að 8.150.000 hlutum í Kaupþingi banka hf... Kjalar ehf. er fjárhagslega tengt Ólafi Ólafssyni, stjórnarformanni Eglu hf. og fruminnherja í Kaupþingi banka hf."
Morgunblaðið 2. nóvember: "STRAUMUR-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur selt alla eignarhluti sína í Keri hf. og Eglu hf...Kaupandi að hlut Straums-Burðaráss í Keri er félagið sjálft...Söluverð er trúnaðarmál...Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur jafnframt selt alla eignarhluti sína í Eglu hf. til félagsins sjálfs...Eftir viðskiptin á Kjalar ehf., félag í aðaleigu Ólafs Ólafssonar stjórnarformanns Samskipa, nærri 87% hlut í Keri...Helstu eignir Kers hf. eru Olíufélagið ehf. og stórir hlutir í Samskipum hf., SÍF hf. og
Jafnframt á Ker um 56% hlut í fasteignafélaginu Festingu ehf. sem varð til árið 2003, við skiptingu Kers, þegar fasteignir Olíufélagsins voru færðar yfir til Festingar og síðar sömuleiðis fasteignir Samskipa og eignir frá Sundi. Festing hefur nú keypt alla hluti Sunds ehf. og J&K eignarhaldsfélags ehf. í Festinu, rúmlega 19% hlutafjár, ásamt því sem félagið hefur leyst til sín hluti Angusar ehf. í sjálfu sér. Kaupverðið er trúnaðarmál…"
Og nú er semsé komið að því að Ólafur Ólafsson selji Olíufélagið. Tvennt vekur athygli fyrir utan að sjálfsögðu áherslu framsóknarmannsins á siðferði í viðskiptum.
Í fyrsta lagi sú yfirlýsing hans um hve ágætt efnahagsástandið í landinu sé fyrir atvinnureksturinn nú um stundir. Með öðrum orðum, á sama tíma og framleiðslufyrirtækin hröklast úr landi hvert á fætur öðru, útflutningsgreinar berjast í bökkum og mikilvæg þjónustufyrirtæki, einkum í ferðaiðnaði, kvarta sáran, blómstrar hagur fjárfestingarspekúlanta sem aldrei fyrr.
Í öðru lagi ábending hans til hugsanlegra kaupenda Olíufélagsins um að nú kunni að vera að skapast möguleikar á að græða á rafmagni og vatni á Íslandi, eða með orðum Ólafs Ólafssonar sjálfs á vefsíðu mbl.is í gær: "Fyrir einu og hálfu ári ákváðum við að efla fjárfestingar okkar utan Íslands og fara í frekari útrás en við þegar höfum verið í á undanförnum árum. Núna metum við það svo að ástandið á íslenska markaðnum, efnahagsástandið, sé afar hagstætt og verði það vonandi næstu árin. Jafnframt að Olíufélagið sé til þess búið að fara í frekari verkefni hér heima, svo sem í orkugeiranum hvort sem það er í vatni eða rafmagni og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða heildsölu. Við teljum að nú sé áhugaverður tímapunktur fyrir nýja aðila að gefa sig fram sem hafa metnað til þess að fara áfram með fyrirtækið,“ segir Ólafur."
Við þekkjum hug Framsóknaflokksins varðandi einkavæðingu á rafmagni. Hér gefur innsti koppur í búri flokksins í skyn, að fyrir fjárfestingabraskara sé gósentíð framundan í vatninu. Það er rétt að allir – alþingismenn, fjölmiðlar, þjóðin öll - hafi þetta í huga þegar vatnsfrumvörp Valgerðar Sverrisdóttur verða rædd á Alþingi á komandi dögum.