Fara í efni

FJÁRMÁLARÁÐHERRA OPNAR SIG

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 18.12.15.
Það var sérkennilegt andrúmsloft á Alþingi í vikunni, bæði utandyra og innandyra og ekki síst þegar þetta tvennt var skoðað heildstætt, í einni sviðsmynd eins og í tísku er að tala þessa dagana.
Innandyra fór fram umræða um fjárlög sem stjórnarmeirihlutanum þótti dragast um of á langinn. Skýringin var tvíþætt: Stjórnarandstöðu var neitað um breyttar áherslur í fjárlagafrumvarpinu, einkum varðandi tvennt, fjársvelti opinberrar heilbrigðisþjónustu og síðan varðandi rýran  hlut öryrkja og aldraðra. Aðrir þættir komu einnig við sögu, og ber þar hátt aðför ríkisstjórnarinnar að Ríkisútvarpinu.

Þá vilja allir verða öryrkjar!

Á meðan þessu fór fram innandyra, efndu öryrkjar til mótmæla utandyra. Út til þeirra barst ómurinn af orðræðu þingsalarins: Öryrkjar mættu ekki undir neinum kringumstæðum komast með tærnar þar sem fólk á vinnumarkaði hefði hælana, þá skapaðist sú hætta að allir vildu verða öryrkjar!  Fólki sem er bundið við hjólastól eða háð einhvers konar fötlun, var ekki skemmt. Ungum karlmönnum sem hrekjast af vinnumarkaði og lenda í þunglyndi fjölgar í röðum öryrkja, var þrumað úr ræðustól, þeir þurfa að komast í vinnu sem gefur meira af sér en örorkubætur.

Vinnumarkaðurinn horfi inn á við

Allt er þetta gamalkunnugt og nálgunin alltaf jafn röng. Það gleymist nefnilega nú sem stundum fyrr að spyrja hvers vegna fólk hrekst af vinnumarkaði og hvers vegna þunglyndi heltekur það. Gæti það verið vegna þess að vinnumarkaðurinn er grimmúðlegri en hann var fyrr á tíð - og horfi ég þar nokkuð langt aftur í tímann. Því samfara markaðsvæðingu hugarfarsins undir aldralok og fram á þennan dag hefur það orðið reglan fremur en undantekningin að spara og skera við nögl í lægri hluta launapíramídans og ef einhvers staðar í hópi starfsmanna er að finna veikleika þá er viðkomandi bolað út. Síðan vill það stundum gleymast að fólk verður öryrkjar vegna þess að það lendir í slysum eða líkaminn gefur sig af öðrum ástæðum.

Vilja greiða götu braskara að heilbrigðisþjónustunni

Við öllu þessu eru til ráð. Við búum við góða stoð- og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfinis. það hefur hins vegar átt í vök að verjast hin síðari ár og þarf þar að snúa vörn í sókn, efla þarf endurhæfinguna og víkka hana út.  Grensásdeild og Reykjalundur hafa þannig sætt niðurskurði og sama gildir um heilsugæsluna. Framlagið til heilbrigðisþjónustu var sem áður segir mjög til umræðu í tengslum við fjárlögin og þá einnig tilraunir til að einkavæða hana sem er sérstakt áhugamál núverandi ríkisstjórnar en Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum sætt færis að koma fjármálabröskurum þarna að borði.  

Verktaka til að veikja kjör og réttarstöðu

Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðar beini sjónum sínum inn á við á fyrirbyggjandi hátt: Virki samstöðuna gegn undirverktöku sem vegur að kjörum og réttindum - þar heyrast vissulega góðir tónar frá mörgum verkalýðsfélögum - og gegn einkavæðingu og  harðræði peningahyggjunnar. Þar liggur undirrótin að því að fólk er hrakið af vinnumarkaði og út í svartnætti þunglyndis og óhamingju. Vandinn er ekki sá að eftirsóknarvert þyki að vera án vinnu og niðri við gólfistann í kjörum hvort sem er á örorkubótum eða lægstu töxtum.
Eflaust eru til einhverjir einstaklingar sem eru þannig þenkjandi að þeim þyki eftirsóknarvert að vera án atvinnu ef þeim er gert gerlegt að draga fram lífið með öðrum hætti. Ég held hins vegar að sú formúla eigi fremur við um gullgreifa þessa heims, sem hafa viðurværi af því að sjá sjóði sína gildna og vaxa í sjálfvirkum gullgerðarvélum en um hina sem engar slíkar vélar hafa til ráðstöðfunar en vilja engu að síður lífa góðu lífi í starfi sem veitir lífsfyllingu og með tekjur sem veita aðgang að ýmsu áhugaverðu í lífinu.

Öryrkjar vilja gott líf

í slíkum heimi vilja öryrkjar einnig búa. Þeir benda réttilega á að fötlun þeirra sé iðulega ekki aðeins þung byrði að bera sálarlega heldur sé hún einnig kostnaðarsöm. Þess vegna mætti færa fyrir því rök að fötluðum manni þurfi að tryggja umframkjör á við þann sem er fullhraustur. Öryrkjar sætta sig ekki við það að skrimta. Að sjálfsögðu vilja þeir lífsfyllingu eins og allir aðrir á nákvæmlega sama hátt, ferðast, fara í bíó og leikhús, geta keypt blöð og tímarit, eignast bíl, gefið gjafir og svo framvegis. Lífið snýst um meira en að geta eldað sér hafragraut.

Efnahagslífið á uppleið

Allt þetta og margt fleira hygg ég að hafi verið til umræðu í kalsaveðrinu á Austurvelli í vikunni. Í þinghúsinu var ekki bara rætt um framangreinda þætti heldur einnig hitt, hvernig efnahagslífið hefði tekið við sér að nýju eftir samdrátt eftirhrunsáranna.
Stjórnarmeirihlutinn var sæll og sáttur enda fengið klapp á kollinn frá baklandi sínu, stórútgerðinni sem fengið hefur niðurfellingu á sköttum og skyldum sem nema milljörðum og hátekjufólkinu sem fengið hefur niðurfellingu á auðlegðarskattinum. Svo er meira í vændum: Að eignast bankana að nýju, komast yfir arðinn af ÁTVR og síðast en ekki síst, að fá að græða á heilbrigðisþjónustu landsmanna.
Svo sæll hvíldi stjórnarmeirihlutinn í faðmi auðlegðar-Íslands, að hann kunni ekki alveg á sviðsmyndina við Austurvöll í vikunni þar sem mætt var reitt fólk og óánægt.

Hvers vegna er fólk að kvarta?

Það var á þessum punkti sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, opnaði sig í míkrófón Alþingis. Hann var ósáttur við hve langan tíma umræðan hafði tekið og það sem meira var, hann botnaði ekkert í því hverju óánægjan sætti. Hvers vegna verið væri að karpa og rífast. „Hér er allt á uppleið," sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hvers vegna eyða tíma í „rifrildi um það að við eigum að skipta einhvern veginn öðru vísi?"
Það er von að spurt sé.