Fara í efni

FJÁRMÁLASTOFNANIR VERÐA AÐ GANGAST VIÐ EIGIN VERKUM

Stundum er eins og forsvarsmenn banka og fjármálastofnana neiti að kannast við sjálfa sig. Þeir draga upp mynd af lánum og lánskjörum sem almenningur og fyrirtæki kannast ekki við. Þannig á nú svo að heita að háir vextir og há þjónustugjöld hér á landi séu hjóm eitt miðað við það sem gerist erlendis. En er það þá ekki svolítið skrýtið að til landsins skuli streyma í hundraða milljarða vís, fjármagn til þess að nýta vaxtamuninn sem er á milli Íslands annars vegar og útlandsins hins vegar? Gæti það ef til vill verið vegna þess að vextir hafa nú um nokkurt skeið verið 6 til 7 prósentustigum hærri hér á landi og að á þessum mikla mun vilji fjárfestar græða? Það er hins vegar alveg rétt að Seðlabanki Íslands hefur keyrt vaxtastigið upp úr öllu valdi með himinháum stýrivöxtum. Það hafa bankarnir sér vissulega til málsbóta. Stefna Seðlabanakans er svo aftur réttlætt sem tilraun til að slá á þensluna en hún er afleiðing af óábyrgri efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar, sem kyndir undir gegndarlausri þenslunni með stóriðjustefnu sinni. Í ljósi hárra stýrivaxta Seðlabankans réttlæta bankarnir semsé afarkjörin.  Stundum gera þeir gott betur og segjast jafnvel niðurgreiða hin vísitölubundnu húsnæðislán sem bera um 5 % vexti (ofan á verðbólgu). Ekki hef ég látið sannfærast um að svo sé. Og hvað með peningana sem launaþjóðin greiðir inn á bankareikning í mánuði hverjum? Hver skyldi þar niðurgreiða hvern?

Hver sem skýringin er þá eru vaxtakjör hér á landi lántakendum óhagstæð með afbrigðum og er ég þar að vísa í annað og meira en það sem þó skást gerist eins og húsnæðislánin. Í Kastljósþætti í í síðustu (sjá að neðan) viku staðhæfði ég að ég þekkti til þess að fyrirtækjum væri boðin lán (í þessu tilviki í kringum hundrað milljónir, með veði, á 8/9 % vöxtum, 5 % lántökugjaldi og 5% uppgreiðslugjaldi. Því miður get ég hvorki greint frá því hver lántakandinn er né lánveitandinn (tilboð á þessum kjörum kom úr fleiri en einni átt) því ég er bundinn trúnaði – en gögnin hef ég undir höndum.

Við forsvarsmenn fjármálastofnana vil ég segja þetta: Þið verðið að kannast við eigin afurð, gangast við eigin verkum. Það er ekkert undarlegt að þegar á sama tíma og upplýst er um hagnað fjármálastofnana sem talinn er í tugum, jafnvel hundruðum milljarða eins og nú, þá skuli fólk og fyrirtæki sem er að kikna undan okri og háum þjónustugjöldum reisa kröfur um betri kjör – ekki síst í ljósi þess að helmingur hagnaðarins er til orðinn hér innanlands. Það má vel vera að einstaka þjónustuþættir mali ekki gull. Aðrir gera það. Því getur enginn mælt í mót. Þeir sem taka hagnað út úr fjármálastofnunum spyrja ekki hvaða rekstrarþættir færi þeim gróðann. Á sama hátt segir viðskiptavinurinn: Á meðan bankinn er rekinn með ofurhagnaði ber honum að lækka verðskrár sínar, á þeim sviðum þar sem þær eru óheyrilega háar, eftir því sem frekast er kostur.
Kastljósþáttur HÉR