Fjöldamorðingjar sameina krafta sína
Á öldum ljósvakans er iðulega boðið upp á prýðisgott efni. Með fullri virðingu fyrir öðrum fjölmiðlum hefur Ríkisútvarpið þar mikla yfirburði. Ekki stendur RÚV sig þó alltaf í stykkinu. Oft fer því meira að segja mjög fjarri. Ég velti því stundum fyrir mér hvort þeir Sjónvarpsmenn geri sér alltaf grein fyrir hve mikil ábyrgð hvílir á herðum þeirra. Sjónvarpið sér okkur nefnilega fyrir drjúgum hluta af menningu okkar – eða ómenningu, eftir atvikum. Mín tilfinning er sú, að innlend dagskrárgerð hafi skroppið saman í seinni tíð og jafnframt hafi aðkeypt efni frá útlöndum orðið einsleitara. Amerískir sápuþættir eru reglulega á dagskrá og hafa sumir þeirra verið sýndir árum saman – svo lengi sem elstu unglingar muna. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að þetta efni er orðið hluti af íslenskri menningu, mótandi umgjörð upprennandi kynslóðar. Eflaust eru þetta ósköp saklausir þættir í smáum skömmtum. En í þeim mæli sem þessu efni er skóflað í þjóðina horfir dæmið öðru vísi við. Upprennandi kynslóð, og vissulega einnig upprunnar kynslóðir eiga annað og betra skilið af hálfu Ríkisútvarpsins. Við höfum Ríkisútvarp til að skapa vandað dagskrárefni og veita okkur jafnframt innsýn í það sem best er gert bæði hér innanlands og hjá öðrum þjóðum. Það er meira en nóg framboð á slöku efni og lágkúru. Þessa dagana auglýsa mynbandaleigurnar til dæmis: "Þekktustu fjöldamorðingjar kvikmyndanna sameina kraftana í skemmtilegum spennuhrolli."