Fara í efni

FJÖLMENNUM Á INGÓLFSTORGIÐ Í REYKJAVÍK Í DAG!

BSRB_Verjum-velf_nov_2008lt
BSRB_Verjum-velf_nov_2008lt
BSRB, Félag eldri borgara í Reykjavík, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands standa fyrir útifundi á Ingólfstorgi í dag, mánudaginn 24. Nóvember, kl. 16:30. Tilefni fundarins er óvissuástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar, kjaraskerðing sem nú þegar blasir við mörgum og síðast en ekki síst hugmyndir stjórnvalda um stórkostlegan niðurskurð á útgjöldum til velferðar.

Á stjórnarfundi BSRB síðastliðinn föstudag var ályktað um áform ríkisstjórnarinnar um 10% niðurskurð í velferðarþjónustunni og hvatt til þess að fólk mótmælti þessu harðlega:

„BSRB mótmælir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flatan 10% niðurskurð á velferðarkerfinu og telur það fráleitt á þeim samdráttartímum sem framundan eru. Ályktun stjórnar fer hér á eftir: Stjórn BSRB mótmælir harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flatan 10% niðurskurð í velferðarkerfi landsmanna. Þetta hefði í för með sér fjöldauppsagnir og verulega skerðingu á þjónustu og gengur þvert á það sem nú er brýnast að gera: stórefla velferðarþjónustuna og styrkja öryggisnet fjölskyldnanna. Á tímum samdráttar er fráleitt að grípa til ráðstafana sem auka á atvinnuleysi í landinu. BSRB hefur á undanförnum misserum margoft bent á hve þröngur stakkur mörgum samfélagsstofnunum er sniðinn og að það hamli því að þær geti sinnt þjónustuhlutverki sínu. Niðurskurður á framlögum til þessara stofnana nú er glapræði og hvetur BSRB alla landsmenn til að mótmæla þessum einhliða ráðstöfunum."

Í fréttatilkynningu sem boðendur fundarins á Ingólfstorgi í dag, sendu frá sér segir m.a.:
„Óvissa um þróun mála á næstu mánuðum og misserum leggst þungt á þjóðina. Verst er óvissan fyrir þá sem mega alls ekki við kjaraskerðingu, þ.e.a.s. almennt launafólk, fólk sem þarf að framfleyta sér af lífeyri eingöngu eða af atvinnuleysisbótum. Leggja verður sérstaka áherslu á að verja kjör hinna verst settu. Þá er það eindregin krafa að staðinn verði vörður um velferðarkerfið, þ.e.a.s. félagsþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, almannatryggingar og loks skólakerfið. Þjónustu þessara mikilvægu grunnstofnana má ekki skerða - þvert á móti  ber að efla hana og stuðla að jöfnuði...Íslenskt samfélag stendur nú á krossgötum. Við teljum að grundvöllur hins nýja Íslands verði að byggjast á samkennd og sameiginlegri ábyrgð okkar hvert á öðru. Það að vega að núverandi velferðarkerfi er ekki fyrsta skref á þeirri leið. Verjum því velferðina sem fyrsta áfanga að bættri framtíð. Við krefjumst síðan lýðræðislegra vinnubragða stjórnvalda, opinnar stjórnsýslu og upprætingu spillingar. „