FLENSBORGARSKÓLI Í TAKT VIÐ TÍMANN!
Birtist í blaðinu Hafnarfjörður 05.04.13.
Sérhver skóli reynir að gera eins vel og hann getur á öllum sviðum og bjóða nemendum sínum upp á afbragðs kennslu og þjálfun. En það er jafnframt snjall leikur af hálfu framhaldsskóla að sérhæfa sig á tilteknum sviðum. Þetta hefur Flensborgarskólinn gert hvað fjölmiðlun áhrærir með rekstri öflugrar fjölmiðladeildar.
Það má segja að Innanríkisráðuneytið hafi líkt og Flensborgarskólinn einnig sérhæft sig á vissum sviðum umfram það sem lög kveða á um. Þetta sérstaka áhugamál okkar í Innanríkisráðuneytinu síðustu misseri er efling lýðræðis.
Og þarna höfum við lagt í púkk, Flensborgarskólinn og Innanríkisráðuneytið. Ráðstefnum og fundum um lýðræðismál á vegum ráðuneytisins hafa verið gerð rækileg skil af hálfu Flensborgarskóla, allt tekið upp og sumt jafnvel sent út jafn óðum, unnið úr efninu með viðtölum sem síðan eru aðgengileg á vefnum og úr verður lýðræðisverkfærakista íbúanna. Um þetta höfum við gert samning.
Hinn 27. febrúar síðastliðinn var ég viðstaddur opnun á nýjum samfélagsvef, http://www.netsamfelag.is/, á vegum Flensborgarskóla þar sem allt þetta efni og miklu meira er aðgengilegt.
Við þetta tækifæri gafst mér kostur á að skoða skólann og þá ekki síst fjölmiðladeildina sem rekin er af miklum glæsibrag. Afraksturinn er að finna á ofangreindum vef en einnig á http://www.gaflari.is/.
Innanríkisráðuneytið hefur gert rækilega grein fyrir þessu framtaki enda erum við þar á bæ þakklát fyrir kraftinn í fjölmiðladeild skólans sem komið hefur sér vel fyrir ráðuneytið.
Fundir sem sjónvarpað er beint frá fá vaxandi athygli utan fundarsalar - þakkir tækninni og þeim sem sérhæfa sig í að nýta hana til góðs. Síðan er á hitt að líta, hve mikla þýðingu það hefur að veita þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi sem mesta innsýn í fjölmiðlun og færni á því sviði.
Að þessu leyti er Flensborgarskólinn að standa sig í stykkinu og svo sannarlega í takt við tímann.