FLUGUMFERÐARSTJÓRAR OG KJARABARÁTTAN
26.06.2008
Það er verst hvað samfélagið og þá ekki síst fjölmiðlaumhverfið er oft latt og værukært. Alltof fáir nenna að setja sig inn í flókin mál. Einmitt í þessu sýnist mér vera fólginn vandi flugumferðarstjóra sem standa nú í ströngum í kjarasamningaviðræðum í Karphúsinu. Þeim er úthúðað fyrir að stefna ferðaiðnaði í vandræði vegna verkfalla. Ég hlýt að taka undir með þeim sem hafa áhyggjur af truflunum í flugi á háannatíma. En hverjum er um að kenna?
Flugumferðastjórar tóku því ekki fagnandi þegar þeir voru „hlutafélagavæddir" í tíð síðustu ríkisstjórnar. Sýnt var þá að ýmis kjaramál þyrfti að leiða til lykta í tengslum við breytinguna. Það var aldrei gert að fullu. Þá voru - og eru - einnig til staðar ýmis óuppgerð mál úr fortíðinni, allar götur frá árinu 1995. Þá urðu viðsemjendur sammála um að setja á laggirnar nefnd sem setti fram tillögur til sátta. Það gekk eftir. Nefndin var skipuð, hún vann sína vinnu, tillögurnar komu fram, nema engar urðu sættirnar - það er af hálfu viðsemjenda flugmálastjóra. Hér má kynna sér allan þennan feril (http://www.iceatca.com/index.php?pid=1&newsid=225).
Síðan er það hitt sem snýr að laununum. Flugumferðarstjórar eru ekki láglaunastétt. Ég hef ekki lagt mig eftir því að taka upp hanskann fyrir þá sem eru sæmilega haldnir.
Mér finnst hins vegar umhugsunarvert hve margt fólk sem er tilbúið að verja hópa í þjóðfélaginu sem eiga sér miklu hærri viðmiðanir á alþjóðavísu en flugumferðastjórar og er ég þar að tala um hvers kyns forstjóra og stjórnendalið einkum í heimi fjármála, er með allt annan málflutning upp þegar launafólk á í hlut. Þá er enginn skilningur, þá heitir það óbilgirni að vilja búa við sömu kjör og tíðkast annars staðar.
Íslenskir flugumferðarstjórar eru hluti af flugumferðarstjórnarkerfi sem er fjármagnað á alþjóðavísu, ekki nema að afar litlu leyti úr íslenskum skatthirslum. Nú spyr ég í ljósi þess sem að framan segir: Finnst fólki eðlilegt að íslenskir flugumferðarstjórar sitji skör lægra en starfssystkin handan Atlantsála? Þarf þetta ekki að vera með í umræðunni? Og framar öllu öðru, þarf ekki að ræða aðdraganda þessarar deilu?