Fara í efni

FORGANGSRAÐAÐ Í ÞÁGU ERLENDRA KRÓNUHAFA

EVRUR
EVRUR

Í gær var samþykkt á Alþingi frumvarp sem tengist losun gjaldeyrishafta. Umræður urðu nokkrar og sumt fróðlegt sem þar kom fram - bæði um málið og ekki síður um málflytjendur.

Margir vildu vita hverjir væru hinir raunverulegu aflandskrónu-eigendur sem nú skal forgangsraðað umfram innlenda handhafa fjármagns sem vilja út úr kerfinu. Þetta er réttmæt ósk.

Þess vegna hljóma undarlega áhyggjur Pírata um „persónuverndarsjónarmið" í þessu samhengi og er illskiljanleg mótsögnin, sem alla vega mér virðist vera, í kröfu þeirra um allt upp á borðið suður í Panama en lok og læs á Íslandi.

Björt framtíð sagði losun hafta eitt mikilvægasta verkafni „stjórnmála í samtímanum".
Nóg um það.

Samfylkingin sagði, venju samkvæmt, að við þyrftum að komast í ESB og taka upp Evru, þá yrði all í góðu lagi á Íslandi. Stundum þakka ég forsjóninni fyrir hve fáir Grikkir skilja íslensku.

Fjármálaráðherrann sagði að með nýsamþykktu frumvarpi væri í reynd verið að loka inni þá krónuhafa, sem skráðir væru erlendis, svo hægt væri að losa höft gagnvart öllum hinum - þ.e. íslenskum almenningi.

Vandinn er hins vegar sá - og það ræddi Bjarni Benediktsson ekki -  að til að allir geti valsað um allan heiminn með fjárfestingarfjármagn sitt og til dæmis eignast hlut í Apple, einsog einn þingmaður sagði að hlyti að teljast til mannréttinda, þá þarf gjaldeyrir að vera fyrir hendi. En svo er ekki og er það að sjálfsögðu mergurinn málsins.

Á þetta minnti ég í örstuttri atkvæðaskýringu við atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20160522T230405