Fara í efni

FORMAÐUR VG KVITTAR FYRIR BOÐ Á RÁÐSTEFNU

Í Morgunblaðinu í dag gerir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, að umtalsefni ráðstefnu breska vikuritsins "The Economist", sem verður á Hótel Nordica 15. maí, í boði Alcoa og fleiri aðila. Gerir hann að sérstöku umfjöllunarefni kynningarbækling ráðstefnunnar. Þennan kynningarbækling er ekki hægt að nálgast á heimasíðu ráðstefnunnar en ég geri hann aðgengilegan hér á heimasíðu minni.
Í grein sinni segir Steingrímur m.a. : "Nú er það ekki svo að maður kippi sér upp við ráðstefnuboð og ekki heldur þó ræðumannahjörðin sé einlit og útlit fyrir að fátt annað komist að en níðþröng sjónarmið ráðstefnuhaldarans eða þess sem borgar brúsann. Svo er vissulega í þessu tilfelli. Ekkert nema "stofuhreinir" stuðningsmenn Kárahnjúkavirkjunar komast á pall það ég fæ best séð. Við hitt brá mér að sjá hvernig málin eru kynnt í miklu glansriti sem með fylgir. Þar segir svo í upphafi á enskri tungu..." Ég læt grein Steingríms fylgja með, lesendum síðunnar til umhugsunar.

Skjalið má sækja hér.

Grein Steingríms J. Sigfússonar:

Takk fyrir boðið Economist og Alcoa ! 
 Hér inn á tölvuna mína var velta bréf þar sem mér er boðið til ráðstefnu um það aðdráttarafl sem Ísland hefur fyrir erlenda fjárfesta. The Economist hyggst standa fyrir ráðstefnunni nú 15. maí í boði Alcoa eins og sagt er í mínu tilviki. Þetta skil ég þannig að ameríski álrisinn Alcoa ætli að borga brúsann, þ.e.a.s. bjóðist af rausnarskap til að borga fyrir mig en annars mun gjaldið vera hátt á annað hundrað þúsund krónur (1800 evrur). Ekki beint ókeypis að berja þau augum Halldór Ásgrímsson, Ingibjörgu Sólrúnu og félaga. Bréfið til mín hefst á þessum orðum:
"Kæri Steingrímur,
Það er okkur mikill heiður að bjóða þér að sitja ráðstefnu The Economist í boði Alcoa, sem haldinn verður hér á landi 15. maí nk."
Síðan er farið um það nokkrum orðum að þetta stafesti að Ísland sé orðið virkur þátttakandi í evrópsku viðskiptalífi og vikið að útrás bankanna. Undir allt saman ritar starfsmaður  almannatengslafyrirtækis f.h. Tómasar Sigurðssonar forstjóra Alcoa (á Íslandi).
Nú er það ekki svo að maður kippi sér upp við ráðstefnuboð og ekki heldur þó ræðumannahjörðin sé einlit og útlit fyrir að fátt annað komist að en níðþröng sjónarmið ráðstefnuhaldarans eða þess sem borgar brúsann. Svo er vissulega í þessu tilfelli. Ekkert nema "stofuhreinir" stuðningsmenn Kárahnjúkavirkjunar komast á pall það ég fæ best séð. Við hitt brá mér að sjá hvernig málin eru kynnt í miklu glansriti sem með fylgir. Þar segir svo í upphafi á enskri tungu:
"Liberalised. Diversified. Privatised. Iceland has a strong economy and a business community that invests heavily overseas. It has enough clean energy to supply the whole of Europe and is rapidly becoming a global production center for energy-intensive industry."
 Þetta er þýtt á íslensku í hliðarramma á eftirfarandi hátt:
"Helstu einkenni Íslands eru frjálsræði, fjölbreytileiki og einkavætt þjóðfélag. Hagkerfið er öflugt og landið býr yfir ómældu magni af grænni orku. Það hentar því vel fyrir orkufrekan iðnað."
Það munar ekki um það. Einkavætt land sem býr yfir hvorki meira né minna en "ómældu" magni af grænni orku. Enska útgáfan er þó að því leiti hógværari að þar er látið nægja að tala um orku sem dugi allri Evrópu. Þegar komið er svolítið lengra inn í textann stendur þetta, enskan fyrst:
"Iceland has a double appeal to investors-cheap natural energy and tax regime favorable to business."
Þýðingin vekur athygli.
"Í augum erlendra fjárfesta er aðdráttarafl Íslands tvíþætt, endurnýjanleg orka og hagstætt skattaumhverfi"
Orðið "ódýr", sem væntanlega væri eðlileg eða bein þýðing á enska orðinu "cheap", á undan endurnýjanleg orka, hefur af einhverjum ástæðum fallið niður. Er það þrátt fyrir allt eitthvað viðkvæmt að kannast við útsöluna svona á heimavelli? Nema samið hafi verið á íslensku og orðinu "ódýr-cheap" skotið inn í ensku útgáfuna í trausti þess að fáir landsmenn berji hana augum.
Við erum sem sagt ekki komin lengra frá bæklingnum fræga "Lowest energy prices in Europe". Hér talar allt fyrir sig sjálft, en boðið ætla ég að hugleiða. Þeim sem vilja lesa sér til og skoða kynningarrit um fyrirhugaða ráðstefnu bendi ég á;  www.ogmundur.is
Steingrímur J. Sigfússon
Formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs