Forsætisráðherra leggur gátu fyrir þjóðina
Forsætisráðherra efndi til fundar með fréttamönnum í gær til að ræða um aðskiljanleg efni: Framtíð bandarísku herstöðvarinnar á Suðurnesjum, olíufélagssamráðið, umdeilda málsmeðferð bandaríska hermannsins og fleira sem hátt hefur borið í fjölmiðlum. Allt þetta hefur verið rækilega tíundað í fjölmiðlum í dag. Sérstaka athygli vakti að Davíð Oddsson kaus að láta ekki uppi á hvern hátt hann skilgreindi varnarþörf Íslands, nokkuð sem ríkisstjórnin hefur verið krafin svara um. Þess í stað lagði hann fyrir okkur gátu. Hún er á þessa leið: Sífellt fleiri ríki ganga í NATO. En hvers vegna? Hver er óvinur þeirra? Og forsætisráðherra svarar sjálfum sér að bragði: "Sá sami og okkar". Og nú er semsé verkefnið að finna út hverjir séu óvinir okkar.
Í allan dag hef ég brotið heilann um hvert rétta svarið er við gátu forsætisráðherrans án þess að vera fullviss um niðurstöðuna. Varla er óvinurinn Rússland því NATO er búið að gera sérstakt vináttusamkomulag við Rússa. Auðvitað eru til vígbúin ríki í fjarlægum heimshornum. En mér finnst ekki sjálfgefið að þau hljóti að vera okkur sérstaklega óvinveitt.
Til að nálgast niðurstöðu ákvað ég að þrengja hringinn og setti fram þá tilgátu að óvinir okkar hljóti að vera hinir sömu og óvinir Bandaríkjanna hverju sinni. Og hverjir skyldu þeir vera? Það eru væntanlega þeir sem standa í vegi fyrir bandarískum hagsmunum. Ef við nú snúum þessari hugsun við og spyrjum hverjir séu bestu vinir bandarísks auðmagns en eins og við vitum ræður það lögum og lofum í bandarískum stjórnmálum. Þá hljóta það vera þeir sem greiða götu þess í hvívetna, einkavæða auðlindir og almannaþjónustu og færa krásirnar upp á silfurfat heimskapitalismans. Sérstakir vildarvinir hljóta þeir síðan að vera sem beina viðskiptum sínum til bandarískra stórfyrirtækja og þar er náttúrlega hergnagnaiðnaðurinn fyrirferðamestur. Þegar hér var komið röksemdafærslunni þóttist ég vita að ég væri á réttri leið því forsætisráðherra gaf nefnilega ákveðna vísbendingu. Orðrétt var gátan svona: "Takið eftir því að það eru ný ríki að ganga í NATO og NATO-ríkin og þá ekki síst Bandaríkin gera kröfu til þess að þau kaupi þotur og byggi upp flugher. Hver er óvinurinn? Sá sami og okkar."
Það hefur ekki farið sérstaklega mikið fyrir því í fréttum hve miklum fjármunum fátækar þjóðir Austur-Evrópu, nýgengnar í NATO, eru nú krafðar um að verja í vígbúnað. Heima fyrir er þetta að sjálfsögðu litið hornauga í fjársveltum heilbrigðis- og menntageiranum. Ein F-16 þota kostar 25-30 milljónir dollara. F-22 orustuþota sem er það alfínasta nú um stundir er verðlögð á 257 milljónir dollara eða um 20 milljarða íslenskra króna. Það samsvarar heildarútgjöldum sem ráðstafað er í gegnum félagsmálaráðuneytið hér á landi á heilu ári. Og takið eftir, hér erum við að tala um verð á aðeins einni flugvél. Ég minnist þess að hafa heyrt því fleygt einhvers staðar, að varla hafi Pólverjar verið komnir inn í NATO þegar bandarískir hergagnaframleiðendur voru mættir til Varsjár. Stór pöntun var gerð og var greinilegt að hafist hafði verið handa um að treysta vináttubönd. Sprengjukaupmennirnir vissu alla vega hverjir væru vinir og ætli forsætisráðherrann okkar líti ekki svo á að óvinir vina okkar í Nató séu jafnframt okkar óvinir. Það er formúlan í þessu bandalagi og að öllum líkindum jafnframt lykillinn að ráðningu á gátu forsætisráðherra.
Ég læt bíða síðari tíma að fjalla nánar um makalausar yfirlýsingar forsætisráðherra um varnarmálin að öðru leyti en sérstaka athygli vil ég þó vekja á hve undarlegum augum hann virðist líta á samskipti Bandaríkjanna og Íslands. Ísland setur hann í stöðu barnsins sem krefst verndar af hálfu foreldra; þeim beri skylda til að tryggja öryggi króans. Og barnaið stappar niður fótunum í tilætlunarsemi og heimtufrekju. Í frásögn af umræddum fréttamannafundi kemur fram að Davíð Oddssyni forsætisráðherra Íslands þykir það vera eðlileg krafa af hálfu Íslendinga að Bandaríkjamenn verji miklum fjármunum í vígvæðingu Íslands sem hann telur orðna hættulega litla. Eftir síðustu samningalotu við Bandaríkjamenn, segir Davíð, töldum "við" , að "varnarþátturinn væri kominn niður í það lágmark sem væri bjóðandi sjálfstæðri þjóð..." Og hverjum bar skylda til að tryggja þennan meinta "varnarþátt" sjálfstæðrar þjóðar að mati forsætisráðherra Íslands? Að sjálfsögðu Bandaríkjamönnum!
Þetta er tónn sem ekki er sæmandi forsvarsmönnum Íslendinga. Við eigum að tryggja sjálfstæði okkar og öryggi með sanngjörnum og réttlátum málflutningi á alþjóðavettvangi í stað þess að ganga jafnan við betlistaf í fótspor rangláts húsbónda. Það síðara er rangt, heimskulegt og hættulegt.