FORSENDUR SJÁLFSTÆÐIS
Orðljótir menn hafa nefnt þá sem aðhyllast tiltekin sjónarmið, berjast fyrir þeirri skoðun sinni og eru í Sjálfstæðisflokknum, náhirð. Þeir sem þannig tala hafa vondan málstað, eða eiga í sjálfum sér erfitt. Einn þeirra sem sumir "vinstrimenn" segja að tilheyri þessum hópi er Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Alinn upp í köldum afkimum kaldastríðsins, hættur að ritstýra. Hann setti nýverið fram byltingakenndar skoðanir, sem ekki fengu athygli sem skyldi, um beint lýðræði. Þær hugmyndir gengu út á eftirláta fólki að þróa samfélagið, skapa farveg svo það mætti verða, og hætta í stórum dráttum að vilja gera eitt og annað fyrir fólk, ákveða hvað best er fyrir almenning, stundum með vísan til að "langtímahagsmunir almennings krefjast þess". Þessar hugmyndir ritstjórans fyrrverandi eru jafn skyldar almennum kosningarétti og skeggið hökunni. Það að lítill hópur, oft gáfumanna, ákveði hvað er best fyrir fólk er vissulega í samræmi við kenningar Leníns um flokkinn, en er í raun bara afbrigði af stjórn hins menntaða einvalds. Tiltekin viðbrögð við atkvæðagreiðslu, sem forsetinn lét efna til á liðnum vetri, voru um sumt lenínisk. Styrmir Gunnarsson skrifar um Magma um helgina. Hann segir réttilega að hér sé ekki deilt um "lítið kanadískt fyrirtæki" heldur snúist deilurnar um "grundvallaratriði í lífi íslensku þjóðarinnar." Hér skrifar ekki dólgamarxisti eða "vinstrimaður", sá sem talar er fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann bendir á að enginn stjórnmálaflokkur geti þvegið hendur sínar af Magma-farsanum og hann segir að íslensk þjóð eigi auðlindirnar og þannig skuli það vera, ekki 50%, eða 49,9%, eins og látið var liggja að á fundi með forsætisráðherra. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á röksemdafærslu ritstjórans fyrrverandi, þegar hann segir þrennt skipta máli í lífi þjóðar: Sjálfstæðið, tungan og yfirráðin yfir auðlindunum. Rétt að vekja athygli á þessari framsetningu nú þegar fámennt íslenskt samfélag gæti staðið frammi fyrir því að rakna upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er ekki bara að þetta sé grundvöllurinn sem gerir okkur fær um að takast á við sjálf okkur og heiminn, þetta er útgangspunktur þess sem vill reisa hér velferðarsamfélag, til dæmis norrænt. Það er freistandi að lesa grein Styrmis og skilja, sem hugmyndafræðilega endurskoðun eða byrjun á uppgjöri, sem ætti að leiða til tímabærs uppgjörs í flokkakerfinu, ekki ólíkt því sem verður að verða í siðferði atvinnulífsins. Eða hvað finnst þér Ögmundur?
Kveðja,
Ólína