FORSETAEMBÆTTIÐ – TIL ÚTRÁSAR EÐA HEIMABRÚKS?
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði nýlega að þjóðin yrði að gera það upp við sig hvort hún vildi að forsetaembættið yrði notað til að styrkja stöðu Íslendinga á heimsvísu eða hvort hafa ætti forsetann einvörðungu til „heimabrúks“.
Í mínum huga ætti að spyrja á annan veg: Á hvaða forsendum á forseti Íslands að beita sér inn á við – í okkar eigin samfélagi – og þá einnig út á við, þ.e. á heimsvísu?
Kröftugur á alþjóðavettvangi
Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert margt prýðilega um dagana, bæði eftir að hann var kjörinn forseti Íslands og einnig áður en hann tók við því embætti. Ólafur hefur þannig tekið upp ýmis brennnadi mál í samtímanum á afgerandi hátt og svo að eftir hefur verið tekið. Ræða hans við setningu Alþingis til varnar íslenskri tungu er ágætt nýlegt dæmi um mjög jákvætt framlag af hans hálfu. Sú ræktarsemi sem forsetinn sýnir margvíslegri félagsstarfsemi í landinu er einnig til fyrirmyndar. Af málefnum sem snerta heiminn allan vil ég nefna loftslagsmálin og fyrr á tíð var Ólafur Ragnar ötull í að vekja athygli á misskiptingu í heiminum. Eftirminnileg er mér ráðstefna á vegum Evrópuráðsins í Lissabon í Portúgal, sem haldin var að frumkvæði ÓRG sem þá var alþinmgismaður, á fyrri hluta níunda áratugarins og sem hann stýrði með miklum glæsibrag. Þessu fylgdist ég með á vettvangi sem fréttamaður Sjónvarpsins. Ég minnist þess einnig hvernig Ólafur Ragnar blandaði sér í alþjóðlega umræðu um friðarmál á þessum tíma. Hann var vel að sér og öflugur málsvari þeirra viðhorfa sem hann hafði tileinkað sér.
Aðdáunarverð kænska?
Eftir að liðið hefur á forsetatíð Ólafs Ragnars hefur hann lagt sífellt meiri áherslu á að aðstoða íslensk fyrirtæki og fjárfesta í svokallaðri útrás þeirra. Mörgum þykir þetta vera lofsvert. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, 17. október sl., segir: „Af samtölum við forystumenn íslenskra fyrirtækja sem starfa á erlendum vettvangi er ljóst að framlag forstans hefur oft skipt máli. Kænska forsetans gerir honum líka kleift að nýta sér fundi, eins og með forseta Kína, til að hvetja embættismenn, þar sem afstaða ráðamanna skiptir miklu máli, til að beita sér í þágu íslenskra fyrirtækja. Á fundum vitnar hann iðulega í samtöl sín við háttsetta ráðamenn til að sannfæra viðstadda um tækifærin sem liggja í samstarfi við Ísendinga.“
Ekki get ég tekið undir þessi hrifningarskrif Björgvins Guðmundssonar í fréttaskýringu hans í Markaðnum enda þykir mér vanta ýmsar víddir í þessa mynd.
Að þjóna fjárfestingarbraski
Þegar forsetinn spyr hvort við viljum að hann sé einvörðungu til heimabrúks, þá skil ég það svo að hann vilji vita hvort við kjósum heldur að hann hætti þátttöku í útrásarstarfinu á þeim forsendum sem hér er lýst. Að því leyti sem spurningin snýst um þetta þá vil ég segja að mér finnst forsetinn ganga alltof langt í að þjóna fjárfestingarbraski, sem iðulega hefur gengið út á að komast yfir einkvæddar eigur og auðlindir víðs vegar um heiminn. Aðkoma forsetans að fjárfestingum á Balkanskaga, svo dæmi sé tekið, þótti mér orka mjög tvímælis á sínum tíma. Ríkisstjórnir, sjálfviljugar eða undir þrýstingi fjármálamanna, einkavæddu og seldu almannaeignir. Á svæðið mættu síðan fjárfestingarbraskarar, gjarnan með sönnunargagn upp á vasann um að þeir væru menn með mönnum. Að sögn þótti ekki dónalegt ef sönnunargagnið var sjálfur forseti lýðveldisins Íslands! Menn í svo fornemmu kompaníi hlutu að vera til að stóla á. Í blaði las ég síðan fyrir nokkrum dögum að einn vesírinn, Björgólfur yngri hygg ég það hafi verið, hefði á þessu ári selt tvær eignir á þessum slóðum og hagnast á þeirri sölu um 72 milljarða! Hverjum skyldu þessi viðskipti hafa gagnast öðrum en Björgólfi jr.? Alþýðu manna á Balkanskaga? Sjúkraliða á Droplaugarstöðum?
„…Kemur Íslandi ekki við…“
Hinn 6. október birtist athyglisvert viðtal í Fréttablaðinu við þá stórfjárfestana Bjarna Ármannsson og Hannes Smárason sem snertir þetta efni og fjallaði ég um það hér á síðunni. Grípum niður í þeirri frásögn:
„Athyglisverður er hlutur Íslands í huga þessara manna. Þeir segja: „Þetta snýst um að fjárfesta í virkjunum víðsvegar um heim og kemur Íslandi ekki við, nema að því leyti sem snýr að þekkingunni og baklandinu hvað það snertir.“ En hvert skyldi vera baklandið? Drepum aftur niður í viðtalinu: „Bjarni segir að samstarfið við Orkuveituna skipti þannig miklu máli enda erfitt að setja verðmiða á hversu mikils virði það sé að geta farið með erlenda gesti og sýnt þeim Hellisheiðarvirkjun og Svartsengi. „Það er mikils virði. Rétt eins og mikils virði er að ríkisstjórnin og forsetaembætti styðji við bakið á þessum verkefnum. En þá er líka mikils virði að fá hjálp frá einkageiranum og að menn standi saman að þessum málun í stað þess að vinna tvist og bast.““
Hvað er verið að segja? Það er verið að segja okkur að Ísland skipti í reynd ekki máli að öðru leyti en því að gott sé að geta sýnt erlendum gestum (væntanlega þeim sem telja á trú um að fjárfestarnir séu traustsins verðir) íslenskar orkuauðlindir og að þeim ráði þeir yfir auk þess sem þeir hafi ríkisstjórn landsins og forsetaembættið í vasanum!!!!"
(Sjá pistilinn í heild sinni HÉR.)
Samkrull við auðmenn á að ræða
Þurfa Íslendingar ekki að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni víðar en hér á landi? Hlýtur það ekki að verða forseta Íslands til umhugsunar þegar þotuliðið minnir okkur á einu sinni enn að því komi Ísland ekki við, að öðru leyti en því að notast megi við það í fjárfestingarbraski!
Ég sá það haft eftir forseta Íslands að hann taki ekki þátt í opinberri umræðu um ferðir sínar og ferðamáta. Ég tel aftir á móti að hann eigi að gera það. Ef sá Ólafur Ragnar Grímsson, sem ég þekkti ágætlega, er orðinn feiminn við opinbera umræðu, þá er mér illa brugðið. Að sjálfsögðu á að ræða þessi mál til hlítar, þ.e. til hvers við ætlumst af forsetaembættinu og þá ekki síst samkrull þess við auðmenn, innlenda sem erlenda.