FORVITINN Á JÁKVÆÐAN HÁTT
Margir hafa orðið til að minnast Leifs Haukssonar útvarpsmanns sem jarðsunginn var í dag. Ekki kynntist ég Leifi náið en mætti þó alloft í viðtal hjá honum á RÚV. Fyrst og fremst þekkti ég hann sem hlustandi.
Leifur Hauksson var einstakur útvarpsmaður. Sem viðmælandi var hann sérstaklega þægilegur en það sem gerði útslagið var áhuginn á viðfangsefninu hverju sinni og hve mjög hann vildi skilja til hlítar um hvað þau snerust. Þannig setti hann sig inn í flóknustu mál og hver spurning bar það með sér að hann vildi fá að vita á þeim allar hliðar til að koma á framfæri við hlustendur sína. „Hann var forvitinn á jákvæðan hátt“, sagði fyrrum samstarfsmaður um Leif. Og aðrir bættu í.
Þessar línur set ég hér til að votta Leifi Haukssyni virðingu mína en jafnframt til að koma á framfæri einnig hér á þessari síðu eftirfarandi samantekt sem RÚV hafði á dagskrá í dag. Þessi rúmlega tuttugu mínúntna dagskrá með umsögnum samstarfsmanna Leifs Haukssonar er einstaklega góð og falleg – og sönn: https://www.ruv.is/frett/2022/05/06/leifur-hauksson-jardsunginn-i-dag?itm_source=parsely-api