FRÁ SAMKEPPNI TIL FÁKEPPNI – KRISTÍN Í RIMA APÓTEKI OG PRÓFESSOR HALL
Þegar ákvörðun var tekin um að gefa lyfjasölu frjálsa, með lögum árið 1994, átti samkeppnin að lækna öll mein og stórlækka verðlag. Reyndin hefur orðið önnur. Í stað samkeppni, lægra verðlags og fjölbreyttari þjónustu blasir við fákeppni og hærra lyfjaverð en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þetta hefur gerst þrátt fyrir meinta hagræðingu í greininni, batnandi samgöngur og lækkandi flutningskostnað sem og hagstæða gengisþróun fyrir innflutningsverslun. Þá segja forsvarsmenn sjúkrahúsanna að fákeppni innflytjenda hafi valdið sjúkrahúsunum búsifjum því þau skipti með sér markaðnum þannig að í reynd sé ekki um neina samkeppni að ræða þegar sjúkrahúsin láti
Enda þótt stóru lyfjakeðjurnar vilji allt gleypa hafa þær enn ekki náð að innbyrða Rima Apótek, Kristínar G. Guðmundsdóttur, sem býður upp á lægsta lyfjaverð sem hér er að finna, samkvæmt könnunum. Mjög athyglisvert viðtal birtist við Kristínu í Morgunblaðinu um helgina undir fyrirsögninni, Segir risana vilja gleypa allt og alla. Kristín segir í viðtalinu að samkeppnin hafi verið mun harðari fyrir tæpum áratug þegar lyfsala fyrst var gefin frjáls: "Samkeppnin var miklu harðari þá. Þegar Lyfja opnaði á sínum tíma veitti hún sams konar afslátt og ég veiti í dag í þeim tilgangi að laða til sín viðskiptavini frá gömlu apótekunum. Síðan þegar stóru keðjurnar gátu ekki stækkað meir, þ.e. voru búnir að kaupa upp öll þau apótek sem þau gátu, fannst þeim óþarfi að vera að gefa þennan afslátt og hækkuðu í kjölfarið verðið hjá sér. Það er því engin raunveruleg samkeppni lengur..."
Og áfram spyr Morgunblaðið hvort reynt hafi verið að kaupa apótekið af henni: "Það er margbúið að reyna það allan þann tíma sem ég hef rekið apótekið. Þessir risar vilja gleypa allt og alla. Þeir vilja bara vera tveir á markaði. Því þá þyrftu þeir ekki að veita neinn afslátt, þar sem engin samkeppni væri fyrir hendi..." Haft er eftir Kristínu í viðtalinu að svo virðist sem risarnir tveir séu nú þegar búnir að skipta bæði hverfum í borginni á milli sín sem og landshlutum.
Á föstudagsmorgun hélt David Hall frá Greenwich háskólanum í London erindi hér á landi um afleiðingar einkavæðingar vatnsveitna. Fram kom í máli hans að fyrst í stað eftir að einkavæðingarbylgjan fór af stað hafi gætt tilrauna til samkeppni. Það væri löngu liðin tíð enda útilokað að koma á samkeppni vatnsveitna. Af hinum einkavædda heimsmarkaði væri 75% nú í höndum tveggja risafyrirtækja Suez og Veolia. Þá væru aðilar á borð við Thames Water einnig stórir. En síðan ekki söguna meir. En það sem meira er, þar sem þessi fyrirtæki hafi haslað sér völl hefðu þau skipt markaðnum á milli sín. Þannig væri eitt fyrirtæki með helminginn af París og annað með hinn. Í sumum borgum væri um að ræða samrekstur þessara fyrirtækja. Dæmi um slíkt fyrirkomulag væri franska borgin Marseilles. Enginn talaði lengur um samkeppni í vatnsbúskapnum. Sömu þróunar gætti í raforkunni í Evrópu. Þar væri þó tæknilega hægt að koma á samkeppni. En í Bretlandi til dæmis, þar sem forsendur fyrir samkeppni í raforku hefðu verið skapaðar, leggðu viðskiptavinir meira upp úr stöðugleika í langtíma viðskiptum en skammtíma sveiflum í verðlagi.
Í íslenska Stjórnarráðinu er lítið gefið fyrir reynslusögur af þessu tagi. Það skal vera rétt að færa grunnþjónustu samfélagsins út á markað, jafnvel þótt yfirgnæfandi líkur væru á því að niðurstaðan yrði sú að slíkt kæmi skattgreiðandanum og notandanum í koll. Vatnalög ríkisstjórnarinnar, sem ganga út á að styrkja eignarréttarákvæði í landslögum og búa í haginn fyrir einkavæðingu á vatni í framtíðinni, er nýjasta dæmi um hvert ríkisstjórnin vill stefna. Lyfsalan er hins vegar komin á einhvers konar markað hér á landi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr og kannski er það svolítið skondið að það skulum vera við í VG, sem höfum sterkastar taugar til einstaklingsframtaks á borð við Kristínar í Rima Apóteki. Það skyldi þó aldrei vera, þegar allt kemur til alls, að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé flokkur einstaklingsframtaksins, flestum öðrum flokkum fremur nú um stundir? Við erum vissulega andvíg stórfelldum ríkisafskiptum einsog þau birtast í stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar en við viljum hins vegar að smá og meðalstór fyrirtæki fái að dafna og blómstra. Slíkt stuðlar að samkeppni. Það segir sig sjálft, að þar sem henni á annað borð er ætlað hlutverk, þarf hún að vera fyrir hendi.