Fara í efni

FRÁBÆR BJÖRK


Það er ekki nóg með að Björk Guðmundsdóttir sé frábær listamaður, sem nýtur verðskuldaðrar heimsaðdáunar fyrir listsköpun sína heldur er hún líka óvenju kröftugur einstaklingur sem beitir sér af alefli í þágu samfélagsins og náttúrunnar.
Björk og félagar vinna nú að því að vekja skapandi umræðu til að örva nýsköpun. Stóra málið er ekki hvort allir séu sammála öllu sem frá hópnum kemur enda held ég að enginn ætlist til þess. Hugsunin er nefnilega sú að varpa ljósi á málin frá ýmsum hliðum, leiða fólk og hugmyndir saman og skapa þannig nýja nálgun.
Rauður þráður í öllu því sem Björk og félagar taka sér fyrir hendur er hins vegar þessi: Virðing fyrir umhverfinu. Sjá http://www.nattura.info/
 
Það var því engin tilviljun að á vegum hópsins kæmu hingað til lands öflugir talsmenn sjálfbærrar þróunar í Bandaríkjunum nú um stundir, þeir Paul Hawken og John Picard.
Í gær hittu þeir að máli  - ásamt Björk -  talsmenn lífeyrissjóðanna íslensku. http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1457/

Fundurinn fór fram í höfuðstöðvum BSRB en það var Sigurður Gísli Pálmason sem hafði millligöngu um að koma honum á. Hann hefur látið mjög að sér kveða í vitundarvakningunni um umhverfismál á liðnum árum. Hafi  hann þökk fyrir. Um SGP sjá til dæmis hér : https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvadan-kemur-drifkrafturinn