Fara í efni

FRÁLEITAR FULLYRÐINGAR FRÁ SA, ALCAN OG BÆJARYFIRVÖLDUM Í HAFNARFIRÐI UM STÓRIÐJU


Ekki ætla ég að verða til að gagnrýna það að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Alcans og Hafnarfjarðarbæjar skuli hafa komið fram sameiginlega á fundi í gærmorgun til að kynna afstöðu sína til "stækkunar álversins í Straumsvík". Forsvarsmennirnir kváðust telja "að stækkunin myndi bæta efnahag Hagfirðinga talsvert."
Á fréttavef RÚV í gær sagði, að Lúðvík Geirrsson, bæjarstjóri hefði sagt "eðlilegt að Hafnfirðingar taki afstöðu til stækkunarinnar út frá eigin hagsmunum þótt huga verði einnig að hnattrænum áhrifum hennar." Á fréttavef RÚV sagði ennfremur um fund þessa þríeykis: "Á fundinum kom fram að stækkunin myndi bæta efnahag Hafnfirðinga talsvert. Samtök atvinnulífsins kynntu útreikninga sem sýna að skatttekjur bæjarins gætu aukist úr 500 miljónum á ári í 1,4 miljarða króna, verði stækkunin að veruleika."
Ástæðan fyrir því að mér finnst ekki ámælisvert að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Hafnarfirði skuli koma fram á fundi ásamt fulltrúum SA og Alcans að tala fyrir stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík er ekki sú að ég sé sammála því sem sagt var á þessum fundi heldur vegna hins að mér finnst það gott og meira að segja hrósvert þegar fólk kemur hreint til dyranna. Ef oddvita Samfylkingarinnar í Hafnarfirði finnst hann helst eiga samleið með SA og Alcan þá er ekkert við það að athuga að hann mæti á sameiginlegum áróðursfundi þessara aðila.

Það sem ég vil hins vegar gagnrýna eru þær röksemdir sem á borð voru bornar á þessum fundi en ég byggi upplýsingar mínar fyrst og fremst af frásögnum Ríkisútvarpsins.

1) Ég leyfi mér að efast um að sú staðhæfing standist að stækkunin myndi bæta hag Hafnfirðinga eins og forsvarmenn áliðnaðrins og bæjaryfirvalda staðhæfa. Hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði látið kanna hve mikinn ávinning það hefði í för með sér ef í stað útþenslu Alcans með stækkuðu þynningarsvæði yrði reist íbúðarbyggð og atvinnuhúsnæði fyrir aðra starfsemi en stóriðju þannig að í stað stækkaðrar álbræðslu yrði svæði fyrri lifandi fólk og þá einnig annan atvinnurekstur? Við erum að tala um eitt fegursta byggingarland við Faxaflóann; land sem SA, Alcan og vinir vilja  úthýsa byggð og öðrum atvinnurekstri af. Yrði það í þágu Hafnfirðinga?

2) Á fréttamannafundinum var heiðarlegt að víkja að aukinni mengun af völdum stækkunar: "Forsvarsmenn Alcan áætla að losun flúors og svifryks meira en tvöfaldist og losun brennisteins aukist um rúman fjórðung, verði álverið stækkað. Losun gróðurhúsalofttegunda frá álverinu nærri þrefaldast og verður eftir stækkun jafnmikil og af öllum samgöngum í landinu." Þetta er nokkuð sem talsmenn stækkunar segja að menn verði vissulega að hafa í huga og vega á móti því sem þeir kalla efnahagslegum ávinningi, eða svo vitnað sé aftur í frásögn fréttavefjar RÚV af umræddum fundi: " Stækkunin hefur að auki í för með sér að störfum í Hafnarfirði fjölgar um 300 og eru þá ótalin þau áhrif sem hún hefur á starfsskilyrði annarra fyrirtækja sem og á þjóðarbúið allt. Hafnfirðingar kjósa um það eftir tvo mánuði hvort vegi þyngra á metunum, hin efnahagslega hagsæld eða sú aukna mengun sem stækkunin hefur í för með sér."

Það er vissulega rétt að fólk þarf að vega og meta áhrif mengunar og sömuleiðis efnahagsleg áhrif. Ég læt ofangreindar staðhæfingar um mengunaráhrifin liggja á milli hluta að sinni en vil hins vegar gera alvarlegar athugasemdir við efnahagsþáttinn. Það hafa verið færð mjög sterk rök fyrir því að efnahaglsegar afleiðingar frekari uppbyggingar stórðju í landinu yrðu mjög neikvæðar bæði hvað varðar "starfsskilyrði annarra fyrirtækja sem og á þjóðarbúið allt." Þannig er er ljóst að frekari stóriðju-uppbygging er mjög þensluvaldandi, leiðir til vaxtahækkunar og þrengir þannig að öðrum atvinnurekstri. Hvað þjóðarbúið varðar má búast við langvarandi viðskiptahalla verði haldið áfram uppbyggingu stóriðju og það sem verra er, líklegt má heita að stórðijan skapi ekki þann virðisauka í efnahagskerfinu sem nánast allar aðrar atvinnugreinar gera. Þannig er innlendur kostnaður og hagnaður talinn vera um 80% í sjávarútvegi og um 70% í ferðaþjónust á móti rúmlega 30% í áliðnaði. Í efnahagslegu tilliti er stóriðjuuppbygging því óhygggileg. Hvað störfin varðar þá skulum við ekki gleyma því að vandinn nú um stundir er ekki skortur á störfum í þessum landshluta, þvert á móti má færa rök fyrir því að eftrispurnin eftir vinnuafli sé of mikil nú um stundir eins og stóraukinn innflutningur á launafólki ber vott um!
Síðan má aldrei gleyma því eitt augnablik að stóriðjustefnan kallar á frekari orkunotkun. Það kemur okkur öllum við hvar virkjað yrði í þágu Alcans. Ég gef mér hins vegar að Hafnfirðingar sýni ábyrgð í þessu efni og greiði atkvæði sitt í þágu íslenskrar náttúru, hagsmuna þjóðarbúsins í heild sinni  en ekki í þágu Alcans, SA og vina þeirra.  

Sjá HÉR frétt RÚV