Fara í efni

FRAM TIL SIGURS Í KRAGANUM !


Niðurstaða liggur fyrir í prófkjörum helgarinnar. Eðli máls samkvæmt er mér efst í huga útkoman hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði í Suðvesturkjördæmi - Kraganum. Þar hlaut afgerandi kjör í efsta sætið Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Sjálfur skipaði ég efsta sæti í síðustu kosningum en bauð mig að þessu sinni fram í 2. sæti listans. Mér varð að þessari ósk og er ég þakklátur fyrir það.
Ég er sannfærður um að með samstilltu átaki tekst okkur að fá tvo til þrjá þingmenn kjörna í kjördæminu. Í kosningunum vorið 2007 fékk VG í fyrsta skipti þingmann kjörinn í kjördæminu. Nú er komið að því að sækja enn fram. Það gerum við galvösk enda munum við hafa á að skipa mjög öflugum lista fari svo að allir þeir sem gáfu kost á sér í forvalinu verði á listanum. Ég vona svo sannarlega að svo verði. Fram til sigurs með Guðfríði Lilju í farabroddi!