FRAMHALD VERÐI Á LÝÐRÆÐISVÖKUNNI
Stjórnmálaflokkar landsins fá árlega nokkur hundruð milljónir króna til stuðnings starfsemi sinni. Réttlætingin er sú að lýðræðið kosti. Forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna benda á að ef enginn fjárstuðningur kæmi úr ríkissjóði væru flokkarnir ofurseldir fjársterkum fyrirtækjum og einstaklingum – það er að segja til að fjármagna skrifstofurekstur, salareigu fyrir fundi og ýmislegt annað sem snýr að starfinu. Og svo að sjálfsögðu er kynningarefni og auglýsingar fyrir kosningar ekki ókeypis.
Ég held að þegar kemur að þeim síðastnefndu - það er að segja auglýsingunum – fari margur skattgreiðandinn að klóra sér í höfðinu. Því það er jú hann sem gerir stjórnmálaflokkunum kleift að auglýsa ágæti sitt.
Nú er það svo að auglýsingar eru hvorki góðar né slæmar í sjálfu sér. Góðar auglýsingar frá framleiðendum vöru og þjónustu svo og verslunum segja frá því hvað er á boðstólum og fræða um kosti og kjör. Slæm auglýsing segir akkúrat ekki neitt en leitast við að skapa hughrif sem hrífi neytendur.
Hið síðara einkennir auglýsingar stjórnmálaflokkanna. Vissulega nefna þeir stundum áherslur sínar en allt kapp er síðan lagt á að sannfæra okkur um það að viðkomandi flokkur geri allt gott og geri það vel – og heiti því í framtíðinni að gera allt frábærlega vel.
Sjálfir myndu talsmenn flokkanna segja að með auglýsingum sé komið á beinu sambandi við kjósendur - auglýsingaflóðið sé eins konar lýðræðisvakning. Það kann að vera rétt að því leyti að dagarnir fyrir kosningar eru dagar hinna miklu loforða.
En hvernig væri þá að efna síðar til daga efndanna? Gera það jafnvel að reglu að stjórnmálaflokkarnir endurtaki auglýsingaátak sitt frá því fyrir kosningar með reglulegu millibili út allt kjörtímabilið. Yfirlýsingarnar úr kosningabaráttunni eins og þær birtust í auglýsingum gætu þannig orðið kjósendum góð mælistika á trúaverðugleika stjórnmálaflokka og hver veit nema að það gæti orðið stjórnmálmönnum sjálfum til góðs að vera minntir á það í krafti hvaða skuldbindinga þeir voru kosnir til áhrifa.
Þannig fengi lýðræðisvakningin að lifa fram yfir kosningar. Stundum hefur vantað svolítið þar upp á.
-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögð
|