FRAMSÓKN GERI HREINT FYRIR SÍNUM DYRUM
Birtist á Smugunni 24.03.13.
Framsóknarflokkurinn kynnti kosningaáherslur sínar í gær. Fram kom að flokkurinn vilji tryggja þjóðareign á auðlindum. En er það rétt?
Ef Framsóknarflokknum er raunverulega alvara um að auðlindir eigi að vera í þjóðareign þá þarf hann að sýna vilja sinn í verki.
Þess vegna þarf Framsóknarflokkurinn nú að svara því hvort hann fallist á tillögu stjórnarmeirihlutans um auðlinda-ákvæði í stjórnarskrá sem tryggi þjóðareign eða tillögu með sama inntaki? Eða heldur Framsóknarflokkurinn sig við þá tillögu sem hann viðraði í Alþingi fyrir fáeinum dögum? Þar var svo að skilja að flokkurinn líti svo á að nýtingarréttur auðlinda - væntanlega kvótans og jarðhitans - væri óbeinn eignarréttur varinn af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar?
En hvað þýðir þetta nákvæmlega?
Framsóknarmenn segja að andstæðingar flokksins séu að snúa út úr fyrir honum. Eðlilegt sé að keyptar heimildir til nýtingar á auðlindum njóti eignarréttar á svipaðan hátt og fyrirfram greidd leiga fyrir íbúð veiti leigjandanum ákveðin réttindi ( sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/07/sakar_vg_um_ofstopa_og_osannindi/ ).
Allar götur frá því kvótakerfinu í núverandi mynd var komið á laggirnar með lögum um stjórn fiskveiða árið 1990 hafa staðið deilur um þýðingu 1. greinar laganna. Hún er orðuð svo: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."
Þetta virðist afdráttarlaust. Engu að síður hefur verið farið með fiskveiðiheimildirnar, kvótann, eins og hreina eign, ekki í lagalegum skilningi, en í veruleikanum beina eign því hún hefur verið veðsett og látin ganga kaupum og sölum. Vissulega hafa margir núorðið keypt þær veiðiheimildir sem þeir nýta en almenna reglan var hins vegar sú að menn fengu úthlutað kvóta gjaldfrjálst. Þannig að samlíkingin við fyrirfram greidda húsaleigu stenst illa þegar við erum að gaumgæfa grunnreglurnar. Þegar síðan hefur átt að hrófla við nýtingarréttinum, kvótanum, ákveða með lögum hvernig eigi að úthluta honum, hvernig eigi skattleggja nýtinguna o.s.frv. , þá hafa menn skeiðað fram á ritvöllin og reyndar einnig Austurvöllinn, einsog við höfum nýlegt dæmi um, til að mótmæla. Viðkvæðið hefur þá verið á þá lund að verið væri að skerða eignarrétt. Þetta er samhengi þessarar umræðu. Ég hef ekki skilið annað en Framsóknarflokkurinn hafi jafnan stillt sér upp með handhöfum kvótans og varið réttindi þeirra einsog um hrein eignarréttindi væri að ræða.
Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur á hinn bóginn alltaf lagt áherslu á að hefð eða nýtingarréttur geti aldrei - og megi aldrei - skapa eignarrétt.
Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður gerði grein fyrir sögulegri umgjörð tillögu Framsóknarmanna í stuttri þingræðu 7. mars síðastliðinn, nefnilega að tillaga þeirra eigi rót í töllugum Auðlindanefndar frá árinu 2000: http://www.althingi.is/altext/raeda/141/rad20130307T110718.html
Varðandi þá fullyrðingu Framsóknar að flokkurinn vilji tryggja þjóðareign á auðlindum er einnig nauðsynlegt að fá fram afstöðu flokksins til breytingartillögu ríkisstjórnarinnar á auðlindalögunum frá 1998, sem illu heilli voru þá samþykkt um einka-eignarrétt á grunnvatni. Að lagasmíðinni 1998 stóðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Sá síðari fór með forræði málsins. Hver eru viðhorf Framsóknarflokksins til þeirrar breytingartillögu sem nú liggur fyrir?
Kjósendur eiga kröfu á að vita hver raunverulegur vilji Framsóknarflokksins er í þessu efnum.