Fara í efni

Framsókn í svefnrofunum?

 

Það þarf ekki mikið pólitískt innsæi til að sjá að alvarlegur trúnaðarbrestur er kominn milli stjórnarflokkanna. Ásakanir ganga á víxl um svik í hvor annars  garð og bendir margt til þess að hafið sé skeið víxlverkandi yfirlýsinga, sem gæti endað í póltískum vítahring. Takist ekki að stöðva þessa þróun mun hún án nokkurs vafa leiða til stjórnarslita, nokkuð sem ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi um nokkurt skeið haft á prjónunum. Vandi Sjálfstæðismanna hefur hins vegar verið sá að það er ekki heiglum hent að losa sig við Framsókn, flokk sem nýtir stjórnarsetu til að hreiðra um sína menn í kerfinu og býr við stöðugan þrýsting úr baklandinu um áframhaldandi fyrirgreiðslu; flokk sem hefur miklar mætur á ráðherrastólum og hefur auk þess stól forsætisráðherra í sigti.

Báðir stjórnarflokkarnir eru mjög illa á sig komnir innvortis eftir að fjölmiðlafrumvarpinu var þröngvað í gegnum hinn pólitíska meltingarvef þeirra. Ég hygg að liðsandinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sé þó bærilega góður, alla vega miðað við ástandið í þingflokki Framsóknarflokksins. Hins vegar mætti segja mér að óánægju gætti víða í baklandi Sjálfstæðisflokksins. Þetta ætlar flokkurinn nú að reyna að laga með áherslu á skattabreytingar. Flokkurinn minnir á að þessu hafi hann lofað kjósendum og kveðið sé á um þetta í stjórnarsáttmálanum.

Planið tel ég  vera (og hafa verið) eftirfarandi: Framsókn er fyrst þvinguð til að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið. Ef það hefði ekki gengið upp og slitnað upp úr stjórnarsamstarfinu, hefði þing verið rofið og Sjálfstæðisflokkurinn án efa reynt að búa svo um hnúta að kosið yrði  um skatta og nauðsyn þess að koma böndum á einokunarfyrirtæki. En að skattafrumvarpinu samþykktu væri  hins vegar hægt að kjósa um skatta og áhersla lögð á hver standi við loforð sín.

Ungu mennirnir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafa í allan vetur mátt sitja undir stöðugum brýningarorðum frá Samfylkingu að efna skattalækkunarfyrirheitin. Þetta var mér lengi vel illskiljanlegt þar til ég rifjaði það upp að Samfylkingin var í skattalækkunarkórnum fyrir kosningar. Lengst gekk Sjálfstæðisflokkurinn í því efni, síðan kom Framsókn, þá Samfylking. VG benti hins vegar á samhengið á milli skattalækkana og niðurskurðar í velferðarþjónustunni. Vilji menn forðast niðurskurð heldur þvert á móti efla þjónustuna þá gengur ekki að skerða tekjur ríkissjóðs. Þetta sýnist mér Framsókn – sem stýrir nú heilbrigðismálum og þarf m.a. axla ábyrgð á niðurskurðinum á Landspítala háskólasjúkrahúsi - sé að byrja að átta sig á. Ég er ekki alveg frá því að Framsókn sé að vakna – alla vega gæti hún verið í svefnrofunum. Það er löngu tímabært að Framsóknarflokkurinn fari að rumska. Mér sýnist margt benda til að hann þurfi að fara að hefja sig upp á flettiskiltin aftur.