Framsókn og forritin
Nú er kosningabaráttan að hefjast og frambjóðendur eru boðaðir á fundi og samkomur til að kynna áherslur sínar. Á síðustu dögum hef ég sótt tvo slíka fundi í Reykjavík, hinn síðari í gær hjá Kiwanis-mönnum sem buðu fulltrúum Framsóknar og VG til að greina frá helstu stefnumálum. Þetta voru bráðskemmtilegir fundir. Það er hrein unun að hlýða á Framsóknarmenn fyrir kosningar. Þá fara þeir á kostum. Sjálfum finnst mér kosningagastefna Framsóknar miklu betri og skemmtilegri en stjórnarstefnan. Hún er mjög dapurleg eins og alkunna er. Yfir kosningastefnunni er hins vegar alltaf bjart – engir öryrkjadómar að trufla okkur, ekkert rætt um biðraðir eftir húsnæði og versnandi velferðarkjör; og ekki er rætt um einkavæðingu elliheimilanna. Ekkert slíkt er í kosningastefnunni. Þar er sterkjusól með lækkandi sköttum og aukinni þjónustu; bættum kjörum fyrir alla. Allir eiga að fá allt. Mikið væri gaman ef saman gætu farið orð og efndir. Framsókn ferst fagmannalega úr hendi að skipta um forrit fyrir kosningar. En því miður á hún ólært að standa við gylliboðin. Í fljótu bragði sýnist mér einu loforðin sem Framsóknarflokkurinn efnir vera gömlu loforðin um að efla þungaiðnað í landinu. Sannast sagna eru það einu loforðalummurnar sem ég hefði fyrirgefið Framókn að láta ógert að baka.